.

19. desember
Drip, drop, drip, drop….

Endalausir dropar, vindur í fjarska og ærandi garnagaul halda vöku fyrir Kára. Hann byltir sér í svefnpokanum á köldu gólfi íshellisins. Hann er kaldur og svangur og hann saknar fjölskyldu sinnar, það er engin leið út úr þessum helli. Kári veit ekkert hvernig þetta mun enda, hvort hann mun nokkurn tímann finnast. Allt í einu heyrir Kári undarlegt hljóð, fallegt hljóð, eins og einhver hafi rekið sig í litlar bjöllur. Hann opnar augun og trúir varla eigin augum. Á miðju ísgólfinu stendur hlaðborð, troðið af mat.

 „Þetta hljóta að vera hyllingar, eða draumur,“ hugsar Kári með sér og lokar aftur augunum. „En það er vissulega matarlykt, getur maður fundið lykt í draumi?“

Kári sest upp og klípur sig í handlegginn. „Þetta var sárt, sem þýðir…“ hugsar Kári og nálgast hlaðborðið. Hann réttir varlega fram höndina og potar í girnilegan kjúkling. Kjúklingurinn er raunverulega þarna, Kári potar í salat sem er líka raunverulega til. Hann stingur kirsuberjatómati upp í sig og finnur safan springa út upp í sér. Kári borðar sig pakksaddan af kræsingunum og sofnar svo loksins, saddur og sæll.

Leó vaknar í sínu rúmi. Þar sem ekkert hlaðborð birtist í herberginu hans í nótt þá er hann viss um að það hafi skilað sér á réttan stað og pabbi hans muni ekki svelta. Leó kíkir út í glugga og sér að Skyrgámur hefur gefið systkinunum sameiginlega gjöf. Leó tekur gjöfina og röltir inn í hjónaherbergið þar sem Katla og Grímur eru ennþá sofandi. Hann sest á rúmið og Katla rumskar.

 „Hæ Katla, sjáðu hvað Skyrgámur gaf okkur,“ hvíslar Leó og sýnir henni borðspil. „Viltu koma að spila?“

Katla kinkar kolli og systkinin læðast niður í stofu að spila án þess að vekja pabba sinn.

Grímur vill að krakkarnir verði heima í dag og systkinin samþykkja það. Leó segir systur sinni frá hlaðborðinu sem hann sendi pabba þeirra með töfrateikniblokkinni og það lætur Kötlu líða betur. Þau fá heimsókn frá fólki úr Rauða krossinum og björgunarsveitinni sem vilja ræða við systkinin um atburði síðustu daga. Þegar Katla bregður sér á klósettið heyrir hún samtal Gríms við björgunarsveitarmann og kemst þá að því að pabbi hennar gæti verið fastur í sprungu. Það gefur henni hugmynd. Hún biður Leó um að teikna skóflu í töfrateikniblokkina.

Leó teiknar sterkbyggða snjóskóflu á næstsíðustu blaðsíðuna. Katla situr uppi á gluggakistu og fylgist grannt með. Þegar teikningin er tilbúin vandar Leó sig sérstaklega vel við að skrifa: Til pabba á jöklinum til að skóflan skili sér örugglega á réttan stað. Leó er stressaður og fær Kötlu til að loka teikniblokkinni. Hún gerir það og systkinin bíða stjörf, þau stara á bókina í heila mínútu áður en þau anda léttar því engin skófla birtist hjá þeim.

Inni í íshellinum er Kári að borða mat af hlaðborðinu þegar undarlega bjölluhljóðið heyrist aftur. Kári snýr sér við og sér snjóskóflu liggja á gólfinu.

 „Hver sem vakir yfir mér og sendir mér þessar bjargir, takk fyrir. Þakka þér fyrir!“ kallar hann upp í loftið og tekur upp skófluna.

Kári lítur í kringum sig og sér hvar sólin virðist skína gegnum snjóinn. Það hlýtur að vera stysta leiðin út. Kári hamast með skóflunni. Hann brýtur klaka, mokar snjó og smám saman grefur hann sér göng sem liggja upp. Hann tekur sér stuttar pásur til að fá sér að borða og drekka en heldur síðan áfram þangað til göngin leiða út úr hellinum. Kári pakkar afgangs matnum af hlaðborðinu ofan í töskuna sína, tekur skófluna og heldur af stað út í óvissuna.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður