Síðasti
kennsludagurinn fyrir jól var runninn upp og Pétur gat ekki beðið eftir því að
honum lyki. Eftir jólabaksturinn og skreytingarnar hjá norninni hafði hann
farið heim og bakað enn meira með pabba. Hafrasamlokur, súkkulaðibitakökur,
kókostoppa, engiferkökur og möndlutvíbökur. Þeir höfðu ætlað að gera fleiri
sortir en urðu að gefa þær upp á bátinn þegar gamla klukkan í stofunni
tilkynnti þeim að háttatími Péturs væri runninn upp.
„Við höldum bara áfram seinna,“
hafði pabbi sagt og þetta seinna var einmitt í kvöld. Þeir ætluðu að baka
brúnar lagkökur (sem voru það besta sem Pétur vissi) og helling af sörum. Pétur
hlakkaði mikið til. Hann fékk nefnilega alltaf að dýfa sörunum í súkkulaðið.
Sem betur fer var bara einn tími eftir í skólanum og það var uppáhaldstími
Péturs, tölvufræði.
Kennarinn sýndi bekknum síðu á
netinu þar sem hægt var að finna afrit af gömlum dagblöðum. Sum voru meira en
tvöhundruð ára. Þau voru skrifuð með svo skrítnu letri að það var ómögulegt að
vita hvaða fréttir þau hefðu eiginlega að segja. Sem betur fer setti kennarinn
bekknum fyrir auðveldara verkefni. Þau áttu að finna hvað hafði verið á
forsíðum blaðanna daginn sem hvert og eitt þeirra fæddist.
Það reyndist aftur á móti erfiðara
fyrir Pétur en flest bekkjarsystkina hans. Hann var nefnilega fæddur 1. janúar
og hvernig sem hann leitaði tókst honum ekki að finna eitt einasta dagblað sem
gefið hafði verið út þann daginn. Hvorki árið sem hann fæddist né nokkur önnur.
Hann skrifaði þess vegna eftirfarandi skýrslu:
Þegar ég fæddist gerðist ekkert.
Pétur hallaði
sér aftur í stólnum. Þetta var frekar glatað. Hann hafði verið að vona að
eitthvað ótrúlegt hefði gerst þegar hann fæddist. Svo fékk hann hugmynd. Gæti
verið að einhver hefði skrifað frétt um hann?
Pétur sló nafnið sitt inn.
Nei. Hann hafði greinilega ekki
afrekað nógu mikið ennþá. Hann prófaði Stefaníu en hún skilaði heldur engum
niðurstöðum. Svo datt honum í hug að leita að norninni. Hún hlaut að hafa gert
eitthvað svakalegt á sínum yngri árum. Eitthvað sem hlaut að hafa ratað í
fréttirnar.
Aðalheiður Jónsdóttir, skrifaði
hann.
Niðurstöðurnar hrönnuðust upp. Þær
voru flestar dagsettar í byrjun desember í ár. Áhugavert. Pétur smellti á
fyrstu niðurstöðuna og stautaði sig í gegnum fyrirsögnina. Hann varð meira
undrandi með hverju orðinu sem hann las. Þarna stóð:
Lögreglan lýsir eftir Aðalheiði Jónsdóttur.