En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

19. Hrópið í myrkrinu

Guðrún hljóp upp stigann. Hljóp upp á jarðhæð. Konan stökk út úr þvottaherberginu. Arkaði að stiganum. Dyrunum að íbúðinni í kjallaranum var hrundið upp. Karlinn í kjallaranum tók sér stöðu fyrir framan stigann. Konan komst ekki fram hjá.

 „Elsku sæta Grýla mín,“ sagði hann.
„Farðu frá bévítans Leppalúðinn þinn!“
 „Ég er búinn að elda kartöflukássu.“
„Mér er andskotans sama! Hypjaðu þig!“ hrópaði hún.

Guðrún nam staðar fyrir framan útidyrnar. Hún leit út um gluggann. Það snjóaði. Það gjörsamlega kyngdi niður snjó. Guðrún horfði niður á tærnar sínar.

O,ó, hugsaði hún og starði á eldrauðu ullarsokkana. Í öllum hamaganginum hafði Guðrún gleymt að fara í skó.
 „HVÆÆÆS!!!“ Jólakötturinn nálgaðist hana. Hvæsið frá honum líktist hljóði frá ljónahjörð. Guðrún opnaði útidyrnar upp á gátt.
 „Ansans barnið!“ endurómaði um blokkina.

Guðrún steig út, snjórinn náði henni upp að hnjám. Hún óð af stað og stefndi í átt að blokkinni þar sem herra Vilhelm bjó með læðunni sinni og kettlingunum tveimur. Snjókoman var svo mikil að fönnin náði henni upp að hnjám. Hún átti erfitt með að ganga í sköflunum en staulaðist eins hratt og hún gat á sínum stuttu fótum. Þrátt fyrir að snjórinn væri jökulkaldur varð Guðrúnu ekki kalt á táslunum. Hún fann hárið á höfðinu breytast í grýlukerti en varminn frá ullarsokkunum hélt á henni hita. Þegar Guðrún var komin hálfa leið að blokkinni heyrði hún hróp fyrir aftan sig:

 „Komdu hérna litla mannsbarn!“
Grýla þrammaði út úr blokkinni, í átt að Guðrúnu. Á eftir henni kom jólakötturinn. „HHHVÆÆS!!“ Hann sleikti útum.

Guðrún reyndi að fara hraðar, hún vildi ekki enda í barnasúpu. En snjórinn var orðinn of hár. Guðrún var ekki ráðalaus, heldur stakk hún sér á bólakaf í jökulkalda fönnina. Hún rétti úr líkamanum og beygði hnén. Svo kreppti hún öklana og sparkaði sér áfram af öllum krafti. Beygja, kreppa, sundur, saman, hugsaði Guðrún og synti áfram í púðursnjónum. Hún fann líkamann hitna. Hún fann hvernig ullarsokkarnir hituðu líkama hennar eins og bakaraofn. Guðrún leit upp úr snjónum til að draga andann. Hún hafði beygt af leið. Hún hafði synt fram hjá blokkinni þar sem herra Vilhelm bjó.

Þrammið í Grýlu varð sífellt fjarlægara. Hún hafði kannski ekki komist heim til herra Vilhelms og kettlinganna en hún hafði að minnsta kosti náð að forða sér frá Grýlu, forða sér frá því að enda í barnasúpu. Guðrún stóð upp og leit í kringum sig. Hún var stödd við hliðina á Fjallaskóla. Hún kom auga á lítinn kofa sem hún hafði aldrei tekið eftir áður. Guðrún þorði ekki að fara aftur heim í blokkina Hún var viss um að Grýla biði hennar þar.

Guðrún gekk upp að kofanum og bankaði á dyrnar. Enginn svaraði. Hún bankaði aftur. Ekkert svar. Hún kom auga á glugga á hlið kofans. Guðrún laumaðist að skjánum og leit inn um hann. Inni í kofanum voru tveir menn með skotthúfur. Hún sá ekki í andlit þeirra en þótti þeir þó kunnuglegir.

Skyndilega fraus Guðrún í sporunum. Hún heyrði þrusk beint fyrir aftan sig.
 „AAAAA!“ heyrðist hrópað út úr myrkrinu.  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!