.

18.desember
Leó hrekkur upp, var þetta skellur sem hann heyrði? Það er mið nótt og úti er vont veður, gul viðvörun sagði veðurfræðingurinn í sjónvarpinu í gær. Aftur heyrist eitthvað hljóð af neðri hæðinni. Leó fer fram úr, klæðir sig í peysu og læðist niður tröppurnar. Þá sér hann að útidyrnar eru opnar og vindurinn skellir hurðinni í snagana á veggnum. Ískaldur vindurinn blæs snjó beint í fangið á Leó. Handan götunnar sér hann jólasvein skella útidyrahurð og labba í burtu, en útidyrahurðin fýkur upp eins og Hurðaskellir hafi ekki lokað henni almennilega.

„Hurðaskellir hefur aldrei skilið eftir opnar dyr áður, er hann ekki örugglega í lagi?“ hugsar Leó með sér. Hann hleypur út á tánum til að athuga með Hurðaskelli en hann er horfinn. Leó ákveður þess í stað að loka dyrum nágrannans, áður en vindurinn fyllir anddyrið af snjó, og hleypur svo aftur heim til sín.

Leó hafði rétt fyrir sér, Hurðaskellir er ekki alveg búinn að ná sér eftir áreksturinn við jarðskjálftamælinn. Hann gerði sömu mistökin á fleiri stöðum í mannabyggðum í nótt og skildi því margar dyr eftir galopnar í vonda veðrinu. Hurðaskellir er gjörsamlega úrvinda þegar hann loksins kemst upp í bæjarhelli, leggst á gólfið og sofnar samstundis með tóman gjafapokann ennþá í hendinni.

 „Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni gengu margir að opnum útidyrum nú í morgunsárið. Margir hafa tilkynnt um tjón vegna snjóskafla sem mynduðust í anddyrum en enn hafa ekki borist neinar tilkynningar um þjófnað. Svo virðist sem óprúttinn aðili eða aðilar hafi brotist inn í hús víðsvegar um landið en engu stolið. Í öðrum fréttum er það helst að maðurinn sem leitað hefur verið að síðan á sunnudag er enn ófundinn. Björgunarsveitir hafa lítið getað aðhafst vegna óveðurs sem gengur yfir svæðið …“

Grímur slekkur á útvarpinu og leggur þrjár skálar af hafragraut á eldhúsborðið. „Matur!“ kallar hann upp stigann og stuttu seinna koma systkinin niður að borða.

 „Þið megið vera heima í dag ef þið viljið,“ segir Grímur þegar allar skálarnar eru tómar. Þau hjálpast að við að setja skálarnar í vaskinn. Dyrabjallan hringir og Grímur fer til dyra. Fyrir utan standa Margrét, Tindur, Gabríel og Gréta.

 „Hæ, eru Leó og Katla heima?“ spyr Gréta.

 „Við ætlum að bjóða þeim að vera samferða í skólann,“ segir Tindur.

Katla og Leó koma inn í anddyrið. Katla knúsar Margréti og Tind.

 „Megum við fara með þeim?“ spyr Leó pabba sinn.

 „Já, auðvitað, ef þið viljið,“ segir Grímur.

Leó klæðir sig í útiföt en Katla hleypur upp að ná í skólatöskuna sína. Hún er svo snögg inn og út úr herberginu að hún tekur ekki eftir jólaandakristalnum á bókinni um leyndardóma jólanna. Kristallinn flöktir á milli glóandi rauðs og kolbikasvarts. Jólin eru í stórhættu.

Á meðan björgunarsveitir leita árangurslaust að Kára er hann sjálfur að undirbúa könnunarleiðangur um sprunguna. Hann festir á sig mannbrodda, finnur vasaljós í töskunni og pakkar svefnpokanum saman. Hann fikrar sig hægt og varlega upp sprunguna og styður sig við ísvegginn. Kári heldur áfram, skref fyrir skref, upp, upp, upp, þrátt fyrir hátt garnagaul því hann verður að komast heim.

Ísveggurinn tekur snarpa beygju, sprungan hefur leitt Kára inn í risastóran íshelli þar sem grýlukerti af öllum stærðum hanga úr loftinu. Pollar hafa myndast undir grýlukertunum og í miðjum hellinum sést glitta í fjallið undir jöklinum, hrúgu af grjóti sem gægist upp úr klakanum.

Kári er uppgefinn hann fær sér sopa úr einum pollinum og finnur sér svo grýlukerta-laust skot í íshellinum. Þar borðar hann síðasta mjólkurkexið. Vistirnar eru á þrotum.

 „Björgunarsveitirnar fundu vélsleðann hans í molum í dag og líka rifið tjald sem þau telja að Kári hafi notað,“ segir Grímur við krakkana eftir kvöldmat. „Það voru engin ummerki um Kára en hvar sem hann er niðurkominn þá er hann líklega orðin matarlaus. Nú þurfum við bara að vona að hann finnist sem fyrst. Það er það eina sem við getum gert.“

Þau gráta mikið þetta kvöld. Grímur sest á milli systkinanna uppi í hjónarúmi og heldur utan um þau. Katla sofnar fljótlega og stuttu seinna sofnar Grímur líka en Leó liggur andvaka við hliðina á þeim.

 „Það hlýtur að vera einhver leið til að bjarga Kára,“ hugsar Leó. Þá allt í einu man hann eftir teikniblokkinni. Hann læðist fram úr án þess að vekja Kötlu eða Grím og fer inn í herbergið sitt. Hann finnur auða blaðsíðu og byrjar að teikna hlaðborð með öllum þeim mat sem Leó dettur í hug. Þegar teikningin er tilbúin skrifar hann undir myndina „Til pabba á jöklinum“ og lokar bókinni.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður