En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

18. kafli: Jólaskreytingar

Pétur og Stefanía komust að því að nornin var ekki alveg jafn fátæk og þau höfðu haldið. Nornir eru það sjaldnast. Innan úr skáp dró hún olíuflösku, hveiti, síróp og margar tegundir af kryddum. Hún blandaði þessu saman í potti yfir heitri hellu og eftir skamma stund fylltist eldhúsið af jólailmi. Upp úr skúffu dró hún tvö kökukefli og piparkökuform og sagði Pétri og Stefaníu að láta hendur standa fram úr ermum. Þau flöttu deig og skáru það út af miklum móð og áður en langt um leið var eldhúsið þakið heitum piparkökum sem biðu þess að verða borðaðar.

            Nornin sat með hníf í hendi við eldhúsborðið og skar út flókin mynstur.

            „Þetta er Hallgrímskirkja,“ sagði hún þegar Stefanía spurði hvað hún væri eiginlega að gera. „Ég er að vinna í því að breyta öllum húsunum hans Guðjóns Samúelssonar í piparkökuhús.“ Hún leit á krakkana. „Guðjón Samúelsson. Þekkið þið hann ekki? Hann var frægur arkitekt og teiknaði mörg falleg hús.“

            „Greinilega ekki húsið þitt,“ muldraði Pétur og roðnaði.

            „Það er nú bara ekkert að því, góði minn,“ sagði nornin og grúfði sig aftur yfir útskurðinn. „Kofinn minn hlýðir engum reglum og gerir nákvæmlega það sem honum sýnist. Ég held til dæmis ekki að okkar kæri Guðjón hafi nokkurn tímann teiknað leyniherbergi í sín hús.“

            „Er leyniherbergi hérna?“ spurði Stefanía áköf og leit í kringum sig „Hvar?“ Hún stökk á fætur og grandskoðaði veggina.

            „Þarna.“ Nornin benti beint upp í loft með útskurðarhnífnum.

            Krakkarnir litu upp og sáu móta fyrir hlera.

            „Það þarf stiga til að komast þangað,“ sagði Pétur.

            „Stiga?“ Nornin hnussaði. „Við þurfum ekkert svoleiðis í þessu húsi. Eruð þið ekki spræk, krakkar?“

            Pétri leist ekkert á tóninn í rödd nornarinnar en Stefanía spratt á fætur, greinilega tilbúin í hvað sem var.

            „Heldur betur.“

            Nornin sópaði mesta ruslinu af eldhúsborðinu. Svo hlóð hún ofan á það pottum og pönnum þar til úr varð mikill turn sem teygði sig alla leið upp í loft. Nokkrar piparkökur reyndu að flýja hamaganginn með því að stökkva niður á gólf en þar beið Lubbi þeirra og gleypti þær hæstánægður í sig.

            „Svona, upp með ykkur,“ sagði nornin og þurrkaði svita af enninu.

            Krakkarnir klöngruðust upp turninn. Þegar þau opnuðu hlerann rigndi yfir þau hvítu ryki svo Pétur fékk hóstakast. Svo smeygðu þau sér inn. Leyniherbergið var fullt af kössum af öllum stærðum og gerðum. Stóran hluta þaksins vantaði svo sumir þeirra voru huldir snjó.

            „Réttið mér þann sem á stendur jól,“ kallaði nornin upp til þeirra.

            Stefanía fann kassann og þau slökuðu honum varlega niður í eldhúsið. Nornin dró langan brauðhníf upp úr skúffu, skar á límbandið sem hélt kassanum saman og opnaði. Við blöstu glitrandi jólakúlur og heill haugur af hálfbrunnum dagatalskertum. Þar var meira að segja aðventukrans úr grenigreinum sem molnaði þegar nornin snerti hann.

            „Ég veit ekki með ykkur,“ sagði hún og leit upp til krakkanna. „En mér finnst vera kominn tími á svolítið jólaskraut.“


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

 Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!