En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

18. Lífið að leysa

Guðrún lokaði dyrunum varlega á eftir sér. Hún vonaði að mamma og pabbi hefðu ekki heyrt í sér. Guðrún hraðaði sér niður stigann. Niður allar þrettán hæðirnar en áður en hún opnaði útidyrnar leit hún út um gluggann. Guðrúnu brá í brún þegar hún sá konuna í kjallaranum arka í átt að blokkinni með jólakötturinn í fylgd á eftir sér. Guðrún tók andköf. Án þess að hugsa sig um flýtti Guðrún sér niður í kjallara. Hún læddist inn í þvottahúsið og faldi sig bak við þvottakörfu í horninu á herberginu. Hún varð að bíða þess að konan færi heim til sín og jólakötturinn líka.

Útidyrunum á blokkinni var skellt aftur. Þungt fótatak heyrðist frá stigaganginum. Konan gekk niður í kjallara. Hún nam staðar milli íbúðarinnar sinnar og þvottahússins þar sem Guðrún faldi sig.

 „Komdu hérna kisan mín,“ sagði konan rámri röddu.
 „Mjá, mjá, mjá!“ svaraði jólakötturinn.
 „Brátt munu mannsbörnin finna…“
 „Mjá.“
 „Brátt munu börnin finna hinn sanna jólaanda!“ Hún skellihló dimmum hlátri.
 „Prrrrr...,“ jólakötturinn malaði af unaði.

Skyndilega fann Guðrún hreyfingu við hælinn á sér. „Tíst, tíst.“ Agnarsmá mús skreið eftir gólfinu. Guðrún veinaði af hræðslu en greip jafnskyndilega fyrir munninn með báðum höndum. „HALLÓ!!“ hrópaði konan. Það bergmálaði um blokkina.

Guðrún fékk kökk í hálsinn.
 „Var þetta óp??“ Konan leit í kring um sig, steig í átt að þvottaherberginu og öskraði: „HALLÓ!!“

Jólakötturinn liðaðist áfram inn í þvottaherbergið og gekk að þurrkaranum sem Guðrún faldi sig bakvið. Guðrún fékk hroll. Kannski vildi kötturinn veiða músina. Auðvitað vildi hann það ekki, hugsaði Guðrún, allir vissu að jólakötturinn veiddi menn og vildi ekki mýs.

Fótatak konunnar nálgaðist felustað Guðrúnar.
 „Bévítis bavíani!“ æpti konan „NÁÐU HENNI!“
 Guðrún fékk kökk í hálsinn. Hún leit á tröllvaxna og gildna fingur sína og ímyndaði sér þá sem hráefni í barnasúpu.

Jólakötturinn hljóp í átt að þvottakörfunni. Hann hvæsti. Guðrún setti hendurnar fyrir andlitið. Hún vildi að hún hefði ekki strokið frá mömmu og pabba. Hún vildi að hún hefði flutt til bala með foreldrum sínum. „Tíst, tís, tí...“ tístið frá músinni þagnaði.

 „Duglegur kisi.“ Tónn konunnar varð glaðlegri.
Guðrún leit undan þurrkaranum og sá lítið skott hverfa inn um kjaftinn á jólakettinum. Hann hafði étið músina. Hann hafði ekki borðað Guðrúnu.
„Jæja kisan mín, brátt munu börnin finna andann.“
 „Mjá.“

Guðrún leit undan þvottakörfunni. Hún sá konuna opna þurrkara í hinum enda herbergisins og taka sokk út. Eldrauðan ullarsokk og brjóta saman. Svo tók hún annan sokk og braut saman. Loks annan og enn annan. Þurrkarinn var stútfullur af eldrauðum ullarsokkum í öllum stærðum. Það myndi taka hana heila eilífð að brjóta saman hvern einasta sokk. Guðrún leit yfir herbergið og sá aðra litla mús.

„Þú verður að fela þig músin mín,“ hvíslaði Guðrún eins lágt og hún gat.
Guðrún fór á fjóra fætur og læddist eins hljóðlega og hún gat af stað. Hún læddist af stað út úr þvottaherberginu. Litla músin trítlaði á eftir.
 „Bévítans börnin munu sjá,“ tuldraði kerlingin.

Guðrún hélt niðri í sér andanum á meðan hún skreið í átt að dyragættinni, ef hún gæfi frá sér hljóð myndi Grýla ef til vill éta hana í einum munnbita.
 „Mjá,“ heyrðist í jólakettinum.

Guðrún skreið yfir þröskuldinn og fram á gang.
 „Brátt munu börnin sjá að Grýla lifir enn!“
 Guðrún fékk kökk í hálsinn.
 „Prrrrr...,“ malaði jólakötturinn af ánægju.
Guðrún stóð upp. Það heyrðist brak í gamla timburgólfinu í kjallaranum.
 „HVER ER ÞAR?“ öskraði Grýla.

Guðrún spratt af stað upp stigann eins og hún ætti lífið að leysa.
„ÉG SKAL SKO SÝNA ÞESSU MANNSBARNI!!!“  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!