„Veðrið á jöklinum versnaði í gærkvöldi, mikill skafrenningur og lítið skyggni. Við sendum leitarsveitir sem gerðu sitt besta en vegna veðurs komust þær ekki langt inn á leitarsvæðið,“ segir Jónas, einn verkefnastjóra björgunarsveitarinnar, við Grím í síma.
„Hvað þýðir það? Eruð þið búin að gefast upp?“ spyr Grímur. Hann kom ekki dúr á auga í nótt fyrir áhyggjum af Kára.
„Nei, alls ekki. Veðrið mun lægja upp úr 10 og þá sendum við átta leitarsveitir af stað, við gerum okkar besta til að finna hann í dag áður en appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi í nótt,“ segir Jónas.
„Takk,“ segir Grímur og skellir á.
Hann fer upp að vekja krakkana. Þau eru vitaskuld áhyggjufull en Grímur telur best að senda þau í skólann svo þau hugsi um eitthvað annað en pabba sinn uppi á fjalli. Askasleikir gaf Kötlu húfu en Leó fékk ullarsokka. Systkinin klæða sig í nýju spjarirnar og eru samferða í skólann.
Kára tókst að tjalda litlu tjaldi í gærkvöldi eftir símtalið við Grím, hann er með góðan svefnpoka og svaf því ágætlega þrátt fyrir kalda og vindasama nótt. Hann liggur ennþá í svefnpokanum og heyrir að vindinn fyrir utan tjaldið hefur lægt töluvert. Allt í einu finnur hann sterka þörf fyrir að fara út og hreyfa sig. Hann rennir niður rennilásnum á svefnpokanum og bröltir út úr tjaldinu. Úti er farið að birta og hann sér að ein hlið tjaldsins er á kafi í snjó. Lágar drunur heyrast úr maga Kára, hann hefur ekki borðað síðan í gær. Hann teygir sig eftir bakpokanum sem er ennþá inni í tjaldi en einhvern veginn hefur Kára tekist að flækja svefnpokann og bakpokann saman. Hann tekur báða poka út úr tjaldinu til að losa flækjuna þegar mun hærri drunur heyrast. Jörðin skelfur og Kári sér annað snjóflóð stefna beint á sig. Hann hleypur af stað þrátt fyrir stingandi sársauka í veika ökklanum og stekkur á bak við klett sem stendur upp úr jöklinum. Snjóflóðið þeytist áfram á ógnarhraða og rífur með sér bæði tjaldið og vélsleðann en Kári rétt sleppur. Hann rígheldur í bakpokann og svefnpokann og andar ótt og títt lengi eftir að snjórinn staðnar. Kári er ekki öruggur þarna, þar sem snjóflóð geta gripið hann með sér fyrirvaralaust, hann verður að finna sér öruggt skjól.
Hann bröltir erfiðlega upp brekkuna þangað til hann dettur gegnum snjóinn og lendir á mjúkum skafli ofan í djúpri sprungu. Eftir margar mínútur af hröðum hjartslætti sest Kári upp og nartar í mjólkurkex úr bakpokanum sínum. Hann lítur í kringum sig og sér að það er ómögulegt fyrir hann að reyna að klifra upp úr sprungunni.
„Það verður erfitt að finna mig hérna niðri en að minnsta kosti er ég í skjóli frá vindinum,“ hugsar Kári.
Hann býr til kodda úr snjónum, pakkar sig inn í svefnpokann og hlustar á niðinn í óveðrinu hátt fyrir ofan sig. Honum verður hugsað til barnanna sinna og mannsins síns. Honum er kalt og hann saknar þeirra en fallegar hugsanir um fjölskylduna flytja hann að lokum yfir í draumalandið.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.