En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

17. Ein nótt til stefnu

Guðrún varð að komast heim til herra Vilhelms óséð. Þegar hún ætlaði að læðast út úr herberginu sínu heyrði hún fótatak á ganginum. Pabbi gekk hröðum skrefum inn í herbergið hennar Guðrúnar.

 „Á ég að segja þér sögu?“ spurði pabbi.
„Nei!“ svaraði Guðrún.
„Á ég ekki að segja þér sögu um Gluggagægi?“
 „Nei, elsku pabbi ég er svo þreytt. Ég verð að fara að sofa núna.“
 „Ég vona að þú takir ekki nærri þér hvað ég er búinn að vera stressaður, gullið mitt. Það er bara svo mikið að gera í vinnunni hjá mér fyrir jól og ég þarf að fara á seinustu næturvaktina mína áður en við flytjum til Balí.“

Guðrún kinkaði kolli. Hún vissi fullvel að pabbi varð dálítið stressaður fyrir jólin. Á hverju ári, fjórum dögum fyrir jól, þurfti hann nefnilega að taka næturvakt í vinnunni. Guðrún vissi ekki alveg hvað hann gerði á þessum næturvöktum en eitt sinn sagði pabbi að hann þyrfti að ganga yfir landið endilangt á einni nóttu. Hann var líka yfirleitt mjög lúinn þegar hann kom heim af næturvaktinni og svaf þá iðulega í tvo daga samfleytt.

„En pabbi, ég vil ekki flytja í bala.“
 „Við verðum að flytja til Balí, elskan mín,“ svaraði pabbi.
„En, en má ég taka með kettling?“ hvíslaði Guðrún.
 „Nei elskan, kettlingar mega ekki fara í flugvél.“
 „Gerðu það, gerðu það!“
„Elskan, ég skil að það sé erfitt að þurfa að flytja svona í flýti. Ég er bara svo hræddur um að ef við förum ekki þá gætum við skemmt jólin. Við gætum skemmt jólin fyrir öllum mannsbörnum á Íslandi, ekki viljum við það, er það nokkuð?“

„Nei, það viljum við ekki.“ Guðrún skildi ekki hvers vegna pabbi hélt að þau gætu skemmt jólin.
„Pabbi,“ tuldraði Guðrún, „veist þú um hernaðarleyndarmálið í kjallaranum?“
Pabbi gapti.
„Guðrún, þú ert allt of ung til að skilja þetta.“
 „En, ég veit...“ Pabbi greip fram í:
 „Það er best að þú gleymir öllu. Gleymir öllu sem þú heldur að þú vitir. Gleymir konunni í kjallaranum, gleymir kettinum og gleymir manninum hennar. Gleymir hvað ég get verið grályndur fyrir jólin og gleymir því sem þú sást í skólanum.“

 „En...“
 „Ekkert en, Guðrún mín. Góða nótt,“ hvíslaði pabbi og kyssti Guðrúnu á hvirfilinn.
Guðrún fékk hnút í magann. Hún leit út um gluggann, starði á agnarsmáu kettlingana í íbúðinni á móti. Tíminn var naumur. Eftir eina nótt myndu mamma og pabbi flytja í bala. En ekki Guðrún. Hún ætlaði ekki að flytja. Hún ætlaði að fela sig. Fela sig með kettlingnum og flytja ein með kisunni inn í íbúðina á þrettándu hæð. Guðrún var líka fúl út í mömmu og pabba. Þau voru að leyna einhverju fyrir henni. Leyna því hvernig þau vissu hernaðarleyndarmálið og hvernig þau þekktu Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn.

Þegar Guðrún heyrði að pabbi var komin inn í hjónaherbergi fór Guðrún á fjóra fætur. Hún opnaði svefnherbergisdyrnar og skreið eins og lipur læða fram á gang. Hún skreið undir sófann sem stóð fyrir framan dyrnar. Skyndilega varð hún skíthrædd, henni leið eins og einhver óboðinn hættulegur gestur væri inni í íbúðinni. Hún lét hræðsluna ekkert á sig fá, opnaði dyrnar og laumaðist út á stigaganginn.  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!