„Nú er bara
rafmagnið eftir,“ sagði Stefanía.
„Við verðum að finna seríur,“ sagði
Pétur.
Það var ekki mikið mál þar sem
einungis var vika til jóla. Í næsta garði var hver einasti runni þakinn litlum
ljósaperum sem blikuðu í skammdegisrökkrinu og á milli þeirra hlykkjuðust
rafmagnssnúrur eins og langir, svartir ánamaðkar. Því miður hurfu þær allar inn
um hálflokaðan kjallaraglugga.
„Við getum ekki brotist inn,“
hvíslaði Pétur. Það væri einum of langt gengið.
„Prófum næsta garð,“ stakk Stefanía
upp á.
Þar fundu þau akkúrat það sem þau
leituðu að. Í skjóli undir húsvegg lá fjöltengi og, það sem meira var, í því
voru nokkrar lausar innstungur. Spennan var alveg að fara með Pétur svo Stefanía
fékk aftur það hlutverk að laumast inn í garðinn. Klóin smaug auðveldlega í
innstunguna og Stefanía hraðaði sér til baka.
„Ég held að við þurfum ekki að fela
neitt í þetta skiptið,“ sagði hún móð. „Það eru svo margar aðrar snúrur að
okkar fellur alveg í hópinn.“
Pétur var sammála.
Á yfirgefnu lóðinni beið garðslangan
eftir þeim og sprautaði vatni í allar áttir. Stefanía lagði til atlögu og tókst
að hemja slönguna eftir mikil átök. Vatnið sprautaðist út um allt en sem betur
fer var Stefanía í regnkápu svo það gerði ekkert til.
„Komið,“ kallaði hún.
Nornin birtist í glugganum.
„Vatn og rafmagn,“ tilkynnti
Stefanía hátíðlega.
„Bara kalt vatn samt,“ hvíslaði
Pétur að henni.
„En bara kalt vatn,“ bergmálaði
Stefanía.
Í nokkur andartök starði nornin á
þau.
„Réttið mér þetta,“ sagði hún svo og
teygði handleggina út um gluggann. Krakkarnir réttu henni leiðslurnar.
„Er þetta ekki magnað?“ sagði
Stefanía þegar þau Pétur voru komin inn í kofann.
„Alveg hreint ótrúlegt,“ tautaði
nornin.
Garðslangan bunaði vatni af miklum
krafti ofan í vaskinn þar sem varðeldurinn hafði logað svo eldhúsið fylltist af
klið. Það var eins og þar væri lítill foss. Nornin hafði tengt rafmagnssnúruna
við loftljósið sem baðaði eldhúsið hvítri birtu.
„Mig grunaði ekki að það væri orðið
svona skítugt hérna.“ Nornin strauk sótarskán af eldavélinni. „Kannski er best
að halda sig bara við kertin. Þau gefa fallegri birtu hvort eð er.“ Hún tók
ljósið úr sambandi og eldhúsið myrkvaðist. „Ég veit um miklu betri not fyrir
þessa snúru.“ Hún grúfði sig yfir ofninn og skömmu síðar barst lágur dynur frá
honum þegar viftan fór af stað og gult ljós barst út um sótuga rúðuna. „Nú skal
sko bakað!“