.

16. desember
Kári og samstarfsfélagar hans eru komin að rótum Mýrdalsjökuls þegar Katla og Leó finna sitthvort vettlingaparið frá Pottaskefli í skónum sínum. Grímur er að kveikja á þriðja aðventukertinu, Hirðakertinu, þegar krakkarnir koma niður. Þau leggja á borð og borða saman egg og beikon áður en þau klæða sig í útiföt til að heimsækja Súsí.

Kári og félagar ferðast upp jökulinn á vélsleðum, hópurinn nálgast bilaða jarðskjálftamælinn óðfluga. Þau stöðva sleðana og skoða aðstæður. Þau taka eftir stórri dæld, sjá að hreyfill er grafinn í snjóinn og sólarsellan er brotin.

 „Hvað gæti hafa valdið þessari dæld?“ spyr Kári þegar hann skoðar mælinn.

 „Stundum brotna stórir klakar og klakamolar rúlla niður brekkurnar hérna,“ segir Axel, yfirmaður hans.

Sannleikurinn er reyndar sá að Hurðaskellir missti stjórn á sleðanum sínum í stóra skjálftanum og klessti óvart á jarðskjálftamælinn.

Þegar mælirinn er kominn í stand hlaða þau öllum verkfærum aftur á sleðana og leggja af stað til baka. Kári og Catarina, vinkona hans, reka lestina. Þau gleyma sér aðeins í spjalli og taka ekki eftir hve hratt ferðafélagar þeirra fara.

 „Mér sýnist við hafa dregist full mikið aftur úr, við ættum kannski að gefa í,“ segir Kári loksins.

„Förum þá í kapp,“ segir Catarina, „sá síðasti er slabb!“ kallar hún um leið og hún þýtur fram úr Kára. Kári gefur í en í stað þess að fara hraðar fer vélsleðinn að hökta.

 „Catarina bíddu, ég held að sleðinn minn sé bilaður,“ kallar hann en þá kemur kröftugur jarðskjálfti. Jörðin virðist hrynja undan Kára þegar snjóflóð dregur Kára og vélsleðann niður langa brekku. Catarina fylgist skelfingu lostin með vini sínum hverfa í snjóinn.

Heima hjá Súsí fær Grímur símtal frá Catarinu.

 „Hæ er þetta Grímur?“ spyr hún.

 „Já, það er hann. Er ekki allt í lagi?“ spyr Grímur.

 „Kári lenti í snjóflóði og hvarf. Við erum búin að hringja á hjálp og björgunarsveitin er komin í málið en það er farið að hvessa og von á óveðri í nótt svo þau geta ekki sent þyrlu. Þau segja að það sé mjög erfitt að komast að honum þar sem hann gæti verið en við verðum bara að halda í vonina. Kári er vel útbúinn svo ef hann er ekki slasaður ætti hann að vera í lagi.“

Grímur er orðlaus, hann tárast og réttir Súsí símann áður en hann bregður sér fram til að gráta. Catarina endurtekur söguna og Súsí þakkar henni fyrir að hringja. Svo sest Súsí hjá systkinunum og segir þeim hvað gerðist.

Grímur er staddur einn inni í eldhúsi þegar síminn hans hringir og á skjánum birtist númer Kára. Grímur svarar samstundis símanum sínum.

 „Hæ, hvar ertu?“ Röddin hans Kára er óskýr því hljóðneminn skaddaðist í snjóflóðinu.

 „Hæ, ástin mín, það er lítil hleðsla eftir á símanum. Ég er í lagi nema ég hlýt að hafa snúið upp á ökklann, ég finn til ef ég stíg í fótinn. Ég veit ekkert hvar ég er samt.“

 „Björgunarsveitin er á leiðinni, reyndu að vera sýnilegur en passaðu þig að verða ekki of kalt,“ segir Grímur hratt.

 „Ég er vel klæddur og með nægar vistir. Ekki hafa áhyggjur af mér. Ég elska…“ sambandið rofnar þegar sími Kára deyr.

 „Ég elska þig líka,“ hvíslar Grímur og snýr sér við með tárin í augunum.

Þá sér hann krakkana sína standa í gættinni, hann þerrar tárin og brosir til þeirra.

 „Hann er á lífi, þetta verður allt í lagi,“ segir hann.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.




Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður