Pétur var svo
spenntur fyrir verkinu sem framundan var að honum tókst ekki að sofna fyrr en
löngu eftir miðnætti. Þegar Stefanía bankaði upp á morguninn eftir var hann
löngu tilbúinn og kominn í útifötin. Á leiðinni í skólann sagði hann henni frá
hugmyndinni.
„Þetta er hrein og klár snilld,“
sagði Stefanía.
Pétur var upp með sér. Eftir skóla
hlupu þau að kofa nornarinnar. Það var svolítið erfitt þar sem þau þurftu að
dröslast með tvo slönguhnykla á bakinu. Aldrei þessu vant var það Pétur sem
bankaði.
„Við erum búin að finna lausn á
öllum þínum vandamálum,“ tilkynnti hann hátíðlega þegar nornin hleypti þeim
inn.
„Það er naumast.“
„Eða allavega þeim verstu.“
„Lát heyra.“
Pétur og Stefanía útskýrðu í
smáatriðum hvernig þau ætluðu að tengja eldhúsið hennar við vatn og rafmagn.
„Þá geturðu fengið þér almennilegt
klósett,“ sagði Pétur.
„Og bakað smákökur,“ bætti Stefanía
við.
„Þið virðist vera með þetta allt á
hreinu,“ sagði nornin.
„Heldur betur,“ sagði Pétur.
Nornin stundi.
„Ég get víst ekki fengið ykkur ofan
af þessu.“ Krakkarnir hristu höfuðin. „Jæja, en farið varlega. Og reynið að
láta engan sjá ykkur. Munið að ég er í felum.“
Þau lofuðu því. Svo hófust þau
handa. Planið sem Pétur hafði útbúið var ekki mjög flókið þó að það væri
frábært. Til að byrja með þyrftu þau bara að finna krana sem hægt væri að
tengja við garðslönguna. Það hlutu að vera einhverjir þannig í görðunum í
kring. Hvernig vökvaði fólk annars jarðarberjaplönturnar sínar á sumrin?
Þau þurftu ekki að leita lengi. Út
úr vegg næsta húss stakkst lítill, hvítur krani. Stefanía læddist að honum með
garðslönguna í hendinni á meðan Pétur beið inni í runna með öndina í hálsinum.
„Ég veit ekki hvernig á að gera
þetta,“ hvæsti Stefanía yfir öxlina á sér og bisaði við að koma slöngunni
fyrir.
„Þú þarft bara að smella …“ Það
heyrðist klikk.
„Komið.“ Stefanía þaut aftur í
felur.
„Skrúfaðirðu frá?“ spurði Pétur.
„Þarf að gera það?“
„Auðvitað.“
Stefanía yggldi sig en laumaðist
samt aftur að krananum.
„Svona, ánægður?“
„Það þarf að fela slönguna.“ Pétur
benti Stefaníu á hrúgu af visnum laufblöðum sem hann hafði safnað saman.
„Nei, nú er komið að þér.“ Stefanía
setti hendur á mjaðmir.
„En ...“
Hún leit skipandi á hann.
Pétur lét undan. Hann laumaðist inn
í garðinn og huldi slönguna með laufblöðunum. Hjartað hamaðist þegar hann
hentist aftur inn í runnann. Þetta hafði verið hættulegt. Og spennandi. En
verkið var bara hálfnað.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.