En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

16. Lok, lok og læs!

Pabbi sagði ekki stakt orð á leiðinni heim. Hann útskýrði ekki fyrir Guðrúnu hvernig hann þekkti Lepp og Skrepp. Hann útskýrði ekki heldur hvers vegna hann hafi rifist við Stúf. Rifist við jólasvein. Þegar feðginin staðnæmdust fyrir framan íbúðina þeirra á þrettándu hæð kraup hann á kné og hvíslaði:

 „Ekkert undarlegt gerðist í dag.“
 „Jú, pabbi, mjög margt undarlegt gerðist í dag.“
 „Nei, allt var eðlilegt.“ Pabbi hristi höfuðið og opnaði hann dyrnar á íbúðinni. Það kom á hann skelfingarsvipur. Heimilið var allt á rúi og stúi.
 „Þetta er ekki heldur eðlilegt,“ sagði Guðrún undrandi.
 „Þið verðið að loka augunum,“ kallaði mamma.
 Eldrauður gjafapappír lá rifinn í tætlum um allt gólf, afskornar trjágreinar voru á borðunum og pappírsskraut hafði dreifst um íbúðina endilanga.
 „Hvað gekk á?“ spurði pabbi óstyrkri röddu.
 „U,u,u“ stamaði mamma, “ko-ko-konan í kjallaranum var í heimsókn, hún var að leita að jó-jó-jólaandanum.“
 „Jólaandanum?“ endurtók Guðrún.

Pabbi veinaði: „Við verðum að læsa hurðinni! Við verðum að vara alla við og við verðum að flytja burt. Og-og passa að mann-manneskjan komist ekki inn.“ Hann skellti dyrunum og arkaði inn í stofu. Hann tók undir sófann öðru megin og hvæsti: „Ætlarðu ekki að hjálpa mér?“ Mamma hraðaði sér í átt til hans. Þau báru sófann inn í anddyri og komu honum fyrir á gólfinu fyrir framan útidyrnar.

 „Nú flytjum við til Balí,“ sagði pabbi ákveðinn. Því næst rauk hann inn í svefnherbergi, tók stærðarinnar ferðatösku og risastóran brúnan strigapoka undan rúminu.
 Pabba krossbrá þegar hann kom auga á Guðrúnu í dyragættinni. Hann ýtti strigapokanum aftur undir rúmið og gólaði:
 „Þú verður að loka augunum.“
 „Ég vil ekki flytja í bala,“ kjökraði Guðrún, „ég vil búa á heimili.“
 „Við pökkum bara því sem við getum ekki lifað án!“ Pabbi tók njósnakíkinn sinn úr náttborðsskúffunni og setti í ferðatöskuna. Hann tók lesgleraugun líka og myndavélina sína.
 „En?“
 „Ekkert en! Flýttu þér að pakka!“

Guðrún hlýddi. Hún fór inn í herbergið sitt og starði á leikföngin, svo á skrímslaplöntuna. Guðrún gat alveg lifað án skrímslaplöntunnar. Hún gat líka lifað án leikfanganna sinna. Það var bara eitt sem hún gat ekki lifað án. Hún gat ekki lifað án kisu.

Guðrún horfði út um gluggann sinn og inn um gluggann hjá nágrannanum. Hún sá herra Vilhelm í næstu blokk með kettlingana tvo í fanginu. Kettlingarnir voru enn agnarsmáir og undurfagrir en höfðu þó stækkað örlítið. Guðrún opnaði gluggann og kallaði: „Herra Vilhelm!“

Hann heyrði ekki í henni. Það var bara eitt sem hún gæti gert. Hún varð að læðast út án þess að mamma og pabbi tækju eftir því. Hún varð að fara í leynilegan leiðangur yfir í blokkina til herra Vilhelms og sækja annan kettlinginn. Kannski myndi Guðrún aftur fá kafloðna kartöflu í skóinn, fyrir vikið. Já, Hún myndi örugglega fá kafloðna kartöflu í skóinn. Það yrði bara að hafa það. Hún vissi hvort sem er ekki hvort Þvörusleikir gæfi börnum sem byggju í bala í skóinn.

Guðrún varð að komast heim til herra Vilhelms óséð. Hún varð að sannfæra mömmu og pabba um að hún væri farin að sofa. Guðrún fór í náttföt og kallaði fram: „Góða nótt, elsku mamma og pabbi.“
Guðrún setti njósnakíkinn, sem pabbi hafði gefið henni í átta ára afmælisgjöf, í vasann og beið þess að foreldrar sínir hyrfu inn í hjónaherbergi.  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar. 

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!