This is a test calendar and it's not possible to participate!

.

15.desember
Katla vaknar við að Leó bankar á dyrnar hennar, Katla opnar augun og sér Leó koma inn.

 „Hæ, viltu koma og sjá hvað Þvörusleikir gaf okkur í skóinn?“ spyr hann.

 „Mhm,“ svarar Katla og ýtir sænginni af sér. Hún sest upp og pírir augun þegar Leó kveikir ljósið. Katla trítlar á náttfötunum á eftir Leó alla leið að glugganum. Í skónum hennar Kötlu er rauður pez-karl með ofur krúttlegan hvolpahaus.

 „Vá, hvað hann er sætur!“ segir Katla og tekur upp pez-karlinn.

 „Ég fékk þennan,“ segir Leó og sýnir henni bleikan pez-karl með fuglahaus.

 „Mig langar að sýna pabba mínum,“ segir Katla og hleypur niður með Leó á hælunum.

 „Sjáiði hvað Þvörusleikir gaf okkur,“ segir Katla þegar systkinin koma hlaupandi inn í eldhús. Grímur situr við eldhúsborðið og flettir blaðinu með kaffibolla í hendinni. Kári er að smyrja samloku. Krakkarnir leggja pez-karlana sína á borðið.

 „Minn er svo sætur að ég gæti étið hann,“ segir Katla.

 „Má ég þá eiga pezið þitt?“ segir Leó í gríni.

 „Nei ertu frá þér?“ segir Katla og er fljót að hrifsa aftur til sín pez-karlinn.

Leó sér Kára setja samlokuna í nestisbox. „Pabbi, fyrir hvað er nestið?“

 „Ég þarf að fara í vinnuna,“ segir Kári.

 „Á laugardegi?“ spyr Katla.

 „Já, því miður, jarðskjálftamælirinn sem mældi skjálftann í gær virðist vera óvirkur og það er bráðnauðsynlegt að koma honum aftur í gang svo við getum mælt virknina á jöklinum,“ segir Kári og setur nestisboxið ofan í bakpoka.

 „En hver fer þá með okkur í leikhúsið að sjá pabba?“ spyr Katla.

 „Súsí ætlar að passa ykkur í dag þar sem ég verð að sýna tvær sýningar. Hún kemur eftir hálftíma og þið farið með henni á fyrri sýninguna,“ segir Grímur.

Súsí og systkinin fara með strætó í leikhúsið. Í þetta sinn er það fjölskyldusýning sem pabbi þeirra er að leika í. Grímur leikur kóng sem saknar sonar síns en prinsinn er fangi uppi í turni sem dreki stendur vörð um. Iðunn, ung bóndadóttir, er staðráðin í að bjarga prinsinum og verða hetja. Hún leggur af stað í björgunarleiðangur ásamt vini sínum Styrmi og eftir margar hindranir tekst þeim að bjarga prinsinum og skila honum heim.

Katla klappar, brosir og hrópar meðan leikararnir hneigja sig. Hún er mjög stolt af pabba sínum, hann stóð sig mjög vel og sýningin var ein sú skemmtilegasta sem Katla hefur á ævinni séð.

Grímur hefur smá tíma áður en hann þarf að undirbúa sig fyrir næstu sýningu svo hann býður Súsí og systkinunum baksviðs til að drekka heitt kakó og spjalla um sýninguna.

Síðan fylgir Súsí krökkunum heim og eldar með þeim kvöldmat, Grímur kemur heim úr leikhúsinu í tæka tíð til að borða með þeim en Kári er ennþá í vinnunni.

Katla er komin upp í rúm að lesa Emil í Kattholti þegar Kári loksins bankar á herbergishurðina.

 „Hæ, ertu nokkuð sofnuð?“ spyr hann.

 „Nei, ég var bara að lesa, náðuð þið að laga jarðskjálftamælinn?“ spyr Katla.

 „Nei, því miður og þess vegna þarf ég að fara í smá ferðalag á morgun,“ segir Kári.

 „Verðurðu kominn heim fyrir jól?“ spyr Katla áhyggjufull.

 „Já, að sjálfsögðu, ég fer snemma í fyrramálið og verð svo kominn aftur til að kyssa þig góða nótt,“ segir Kári.

 „Lofarðu?“ spyr Katla.

 „Já, ég lofa,“ segir Kári, „farðu nú að sofa litli bókaormur.“ Hann kyssir hana á ennið. Katla leggur bókina á náttborðið og leggst undir sængina. Kári slekkur ljósin og fer að pakka útifötum í bakpoka.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður