En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

15. kafli: Pétur finnur frábæra lausn

Það var ekki fyrr en mörgum dögum síðar að Pétur fann loksins lausn á klósettvandamálinu. Hann hafði byrjað á póstkassanum handa norninni í smíði í skólanum en ekki náð að klára áður en tímanum lauk. Sem betur fer tókst honum að sannfæra smíðakennarann um að leyfa sér að taka ókláraðan póstkassann með sér heim með því að segjast eiga ömmu sem gæti hjálpað. Ömmu sem einu sinni hefði byggt heilt hús. Svo þyrfti póstkassinn líka lífsnauðsynlega að vera tilbúinn fyrir jól.

            Þess vegna sleppti Pétur því að heimsækja nornina og Lubba eftir skóla þennan daginn. Hann þurfti að sinna mikilvægari verkefnum. Þegar hann kom heim skrifaði hann miða og skildi eftir á eldhúsborðinu. Á honum stóð:

 

Ágæti pabbi,

ég er að fara til ömmu. Það er mjög nauðsynlegt. Ég kem aftur.

Virðingarfyllst, Pétur.

 

Hann hafði lært hvernig átti að skrifa bréf í skólanum og var stoltur af útkomunni.

            „Nei, ertu kominn, Pétur minn,“ sagði amma og ljómaði þegar hún opnaði útidyrnar.

            Pétur kinkaði kolli. Svo sagði hann ömmu frá póstkassanum sem yrði að vera tilbúinn sem allra fyrst. Hann sleppti því hins vegar að minnast á nornina.

            „Póstkassinn er sko fyrir, hérna, vinkonu mína,“ sagði hann.

            „Ég skil.“ Amma brosti.

            Pétur var alls ekki viss um að það væri satt en sagði ekkert. Amma leiddi hann niður í bílskúr þar sem þau settust við gamlan hefilbekk og tóku til við smíðarnar. Þær gengu mjög vel því amma var sérstaklega handlagin. Enda ekki við öðru að búast af konu sem reist hafði sitt eigið hús.

            „Áttu nokkuð brennipenna sem ég get notað til að skrifa nafnið á norn – ö – vinkonu minni?“

            „Nei, en ég á málningu.“ Amma klöngraðist upp á hefilbekkinn og rótaði í dóti á einni hillunni.

            Það var þá sem Pétur kom auga garðslönguna. Hún lá upphringuð úti í horni og beið þess að verða notuð. Og við hliðina á henni lá önnur löng slanga sem, ef Pétri skjátlaðist ekki hrapalega, var rafmagnssnúra. Á því augnabliki þaut hugmynd upp í höfuðið á Pétri af svo miklum krafti að hann missti næstum jafnvægið.

            „Amma,“ sagði hann eftir að hafa jafnað sig. „Mætti ég kannski fá þessar tvær lánaðar?“


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

 Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!