En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

15. Afsakið, afsakið.

Guðrún starði á lágvaxna karlinn. „Ert þú Stúfur? Jólasveinninn Stúfur?“
 „Laukrétt,“ svaraði hann sigri hrósandi.
 „Hvað voru þið að rífast um?“ spurði Guðrún. Hún starði stjörf á föður sinn.
 „Guð, það var ekkert merkilegt,“ tautaði pabbi.
 „Ekki það nei?“ muldraði Stúfur og horfði illilega á pabba Guðrúnar. „Við verðum að drífa okkur,“ sagði pabbi við Guðrúnu og bætti við: „ Ég er allt of seinn.“
 „Já, pabbi, þú ert mjög seinn.“ Guðrún var öskureið.

Stúfur rétti Guðrúnu spilastokk og hvíslaði: „Þetta er aukagjöf handa þér, ekki segja neinum. Engum. Þetta er leyndarmál.“ Hann setti vísifingurinn á varirnar, „ussss... engum… það er bannað að segja fólkinu í landinu frá leyndarmálum... ussss... sérsaklega frá hernaðarleyndarmálum.“ Stúfur skellti upp úr.
 Guðrún fékk kökk í hálsinn. Vissi Stúfur að Guðrún vissi hernaðarleyndarmálið?
 „Alla malla, hvað eru þeir að gera hér?!“ hrópaði Stúfur og starði út ganginn.
Guðrún sneri sér við. Leppur kom hlaupandi í átt til þeirra. Skreppur gekk rösklega á eftir og hvæsti: „Leppur! Það er harðbannað hlaupa á ganginum!“

Pabbi tók í höndina á Guðrúnu, óttasleginn á svip.
 „Við skulum fara inn í stofu, elskan mín. Núna.“ Pabbi togaði Guðrúnu inn í heimastofuna, lokaði dyrunum á eftir þeim og skellti í lás.
 „Afsakið,“ hvíslaði pabbi skömmustulegur.
Una umsjónarkennari starði ákveðin á pabba og tók til máls.

„Kæru foreldrar og börn, eins og ég sagði áðan vil ég bjóða ykkur velkomin í...,“ hún komst ekki lengra. „AFSAKIÐ!“ hrópaði Leppur hinum megin við lokaðar dyrnar á heimastofunni.
„AFSAKIÐ, AFSAKIÐ!“ öskraði Skreppur.
Gangaverðirnir bönkuðu á dyrnar. Þeir bönkuðu og bönkuðu.
Krakkarnir störðu hver á annan, foreldrarnir göptu.
Una gekk hægum skrefum að dyrunum og tók í húninn.
 Í sama mund og hún opnaði dyrnar féllu Leppur og Skreppur um þröskuldinn og duttu inn í heimastofuna.

 „Var einhver að spyrja eftir jólasveininum?“ tautaði Leppur og stóð upp.
 „Jólasveinninn er kominn!“ skrækti Skreppur þar sem hann lá enn kylliflatur á gólfinu.
 „Nú, jæja,“ svaraði Una, „hvar er hann?“
 „Nú, hérna auðvitað!“ útskýrði Leppur. „Beint fyrir framan nefið á þér,“ ítrekaði Skreppur.
 „Afsakið,“ muldruðu bræðurnir, „afsakið, afsakið, AFSAKIÐ!“ Þeir flissuðu í sífellu.
 „Já, er það já?“ Una sendi gangavörðunum illt augnaráð. Svona augnaráð eins og hún sendi Guðrúnu alltaf þega hún og Sunna, sessunautur, mösuðu of mikið.

Skreppur stökk á fætur og tók sér stöðu fyrir framan töfluna.
 „Krakkar, krakkar, krakkar! Á ég að benda á jólasveininn?“ sagði hann.
„Já,“ sögðu krakkarnir í kór, „já, já, já!“
Í sama mund arkaði Stúfur inn í stofuna.
 „Hó, hó, hó ! Ég er jólasveininn,“ sagði hann og horfði reiðilega á Lepp og Skrepp. „Bara ég, enginn annar!“
 Á eftir Stúf gekk Leiðindaskjóða. Hún stefndi rakleiðis í átt að bræðrunum.
 „O-Ó,“ sagði Leppur.
 „Ansans,“ muldraði Skreppur.

Leiðindaskjóða breiddi út faðminn. Hún kleip Lepp í eyrnasnepilinn og Skrepp í nefið. „Áts, ái, ó!“ ómaði í þeim þegar Leiðindaskjóða dró þá út úr stofunni.
Foreldrarnir horfðu niður á tærnar sínar. Sumir tóku upp snjallsímana sína jafnvel þó svo símar væru bannaðir í skólanum og enn aðrir létu sem ekkert undarlegt hefði átt sér stað.
 „Afsakið þetta,“ sagði pabbi við Unu umsjónarkennara, „afsakið, afsakið, afsakið!“
„Þú þarft ekkert að afsaka,“ svaraði Una stuttorð.
„Þeir kunna sig ekki, vesalings ræflarnir,“ útskýrði pabbi.
 „Nei, greinilega ekki,“ svaraði Una, svo leit hún sposk á pabba og bætti við: „Hvernig þekkir þú Lepp og Skrepp?“
 Guðrún starði á föður sinn. „Pabbi, þekkir þú Lepp og Skrepp?“  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.                 

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!