Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Þegar enginn trúir manni

„Mamma?“ Urður leit upp frá morgunverðinum og reyndi að böggla út úr sér spurningu. „Ferð þú eitthvað aftur fyrir jólin?“. „Já!“ svaraði mamma hress „Við förum auðvitað í Sælukot að gera laufabrauð.“ „Ahh“ hrópaði Urður spennt. „Í dag?“ „Nei krútta, um næstu helgi. Eftir tæpa viku“. Urður vaggaði sér til á stólnum af spenningi. Í smá stund. Þar til hún mundi að hverju hún hafði raunverulega verið að spyrja.

„Nei sko... Svona til Danmerkur?“ Mamma horfði athugul á Urði, teygði svo fram hendina og strauk henni yfir hárið. „Nei krúttið mitt, engar áhyggjur. Það eru engar fleiri vinnuferðir á þessu ári. Ég verð bara hér heima með ykkur pabba. Nú og upp í bústað með ykkur pabba“ bætti hún við og blikkaði. Urður var ekki með áhyggjur af því að mamma hennar færi. Hún var með áhyggjur yfir að hún færi ekki.

„Mamma. Hvernig eigum við eiginlega að koma jólaálfinum heim til sín ef þú ferð ekkert aftur til Danmerkur?“ Mamma horfði á Urði og teygði til munninn, eins og hún gerði svo oft þegar hún hugsaði sig um. „Helduru að hann komi sér ekki bara sjálfur? Alveg eins og hann kom hingað.“ „En þekkirðu engan annan sem er að fara til Danmerkur? Hann verður að komst heim!“ reyndi Urður.

„Heyrðu litla stýra. Ég ætla nú ekki að fara leita að fólki á leið til Danmerkur til að taka með sér álf. Ég held að jólaálfar hverfi alveg af sjálfu sér þegar það koma jól“ sagði mamma og blikkaði. „Mamma, hann kemst ekki sjálfur, hann þarf að komast til fjölskyldunnar sinnar, annars eru börn sem fá engar jólagjafir!“

Mamma brosti örlítið út í annað munnvikið. Urður þekkti þetta bros. Það þýddi svona svona Urður litla, þetta mál er útrætt. Það sauð á Urði. Afhverju gat fullorðið fólk aldrei skilið neitt? Hún yrði að finna út úr þessu sjálf. Án allrar hjálpar.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað