This is a test calendar and it's not possible to participate!

.

14. desember
Leó vaknar strax við vekjaraklukkuna sína, hann sest upp og lítur út í glugga. Þar sitja tveir litlir bangsar í sitthvorum skónum og brosa til hans. Leó teygir sig í upptökuvélina sem liggur ofan á háum bókastafla á náttborðinu hans. Minnið á upptökuvélinni fylltist um nóttina, upptakan stöðvaðist um leið og húfan hans Stúfs birtist í glugganum. Það er tæplega nóg til að sannfæra krakkana í skólanum. Og svo til að bæta gráu ofan á svart verður upptökuvélin rafmagnslaus og ekkert hleðslutæki til í húsinu.

Stúfur kemur dauðþreyttur inn í Bæjarhelli þar sem hann hittir bræður sína tvo. Stekkjastaur er að sjóða hafragraut yfir litlu eldstæði og Giljagaur er búinn að hengja upp ullarnærfötin sín á snúru. Bæjarhellir hefur útsýni yfir allt höfuðborgarsvæðið og Stúfi finnst fátt fallegra en haf af jólaljósum á dimmum desembermorgni.

 „Giljagaur var að segja mér slæmar fréttir, jólaandakristallinn er rauður,“ segir Stekkjastaur og setur hafragraut í þrjár skálar.

 „Ha? Hvernig veistu?“ spyr Stúfur og fær sér sæti við eldstæðið.

 „Katla og Leó skrifuðu bréf, þau eru með einu bókina þar sem jólaandakristalnum hefur ekki verið stolið,“ segir Giljagaur og sest hjá þeim.

„Ja hérna, veit mamma það?“ spyr Stúfur og stingur fullri skeið af hafragraut upp í sig.

 „Ekki ennþá,“ segir Stekkjastaur og þeir borða grautinn í þögn. Allt í einu heyrist jólalag upp úr skjóðu Stúfs. Giljagaur horfir áhyggjufullur á skjóðuna.

 „Gleymdirðu að gefa eina gjöfina? Það er grafalvarlegt ef jólaandakristallin er rauður þá gæti barnið misst trúna og …“

 „Slakaðu á,“ segir Stúfur og dregur síma upp úr skjóðunni „þetta er bara mamma að hringja.“ Bræðurnir þrír hópast saman við símann og Stúfur ýtir á græna takkann. Á skjánum birtist eyra Grýlu í miklum skugga.

 „Hæ mamma,“ segir Stekkjastaur.

 „Hæ Giljagaur,“ segir Grýla.

Giljagaur segir sármóðgaður: „Nei ég er Giljagaur þetta var Stekkjastaur.“

 „Lúði, af hverju er þetta svona hátt?“ spyr Grýla Leppalúða.

Stúfur ranghvolfir augunum. „Mamma, ég var búinn að segja þér að þetta er myndsímtal, þá þarftu ekki að setja síman upp við eyrað.“

Grýla færir síman örlítið frá eyranu og nú sést eyrnamergur Grýlu í smáatriðum, bræðurnir hörfa frá símanum.

 „Ég held að þú þurfir að skafa úr eyrunum, oj bara,“ segir Giljagaur.

Stúfur og Stekkjastaur gefa Giljagaur olnbogaskot.
 „Ái,“ kallar Giljagaur.

 „Hvað sagði hann?“ spyr Leppalúði úr fjarlægð.

„Ekki neitt,“ segja Stúfur og Stekkjastaur samtímis.

 „Mamma, taktu síman frá eyranu og horfðu á skjáinn,“ segir Stúfur og loksins færir Grýla símann frá eyranu. Núna sjá bræðurnir upp í nasirnar á báðum foreldrum sínum.

 „Nei, þarna eruð þið allir þrír. Litlu strákarnir mínir,“ segir Grýla. „Stúfur, ég gleymdi að spyrja þig í gær, ertu ekki örugglega með nóg af nærbuxum?“

 „Æji mamma,“ segir Stúfur pirraður og bræður hans flissa. Allt í einu heyrast drunur og allt hristist í Grýlu helli.

 „Bölvaðir jarðskjálftar, geta þeir ekki haldið í sér fram yfir jól?“ gargar Grýla.

 „Mamma er allt í lagi?“ spyr Stúfur.

 „Funduð þið ekki skjálftann?“ spyr Grýla.

Bræðurnir hrista hausinn en einmitt þá kemur dynkur og Bæjarhellir hristist lítillega. Giljagaur tekur upp pela af mjólk sem var næstum því oltinn um koll. „Mig langaði einmitt í mjólkurhristing í dag,“ segir hann og fær sér sopa.

Útidyrnar opnast í Grýluhelli og fyrir aftan foreldra sína sjá bræðurnir Hurðaskelli koma inn með brotinn sleða í höndinni.

 „Þetta var sko skellur í lagi! Jarðskjálftinn sendi mig í allt aðra átt en ég ætlaði svo ég klessti á einhverja málmsúlu, ég held að ég sé með kúlu… Vá! Þetta rímaði, súlu, kúlu, súlu, kúlu…,“ Hurðaskellir sönglar áfram, „súlu, kúlu…,“ og fer að skoða kerti.

 „Ég þarf að fara að sinna bróður ykkar, hann er eitthvað kexruglaður,“ segir Grýla og leggur símann frá sér í sætið.

 „Mamma, þú gleymdir að skella á! Manstu, ýta á rauða takkann!“ kallar Stúfur en Grýla svarar ekki. Allt í einu kemur rassinn á Hurðaskelli í mynd og bræðurnir garga allir í kór.

 „Nei, nei, nei, oj!“ um leið og Hurðaskellir sest á símann.

Stúfur skellir á og bræðurnir standa þöglir saman inni í Bæjarhelli.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður