„Förum bara
til nornarinnar – ég meina Aðalheiðar,“ sagði Stefanía.
„Ég nota ekki ókunnug klósett,“
stundi Pétur. Hann var í spreng.
„Pissaðu þá úti í runna.“
„Aldrei.“
„Hvers vegna gerðirðu það ekki í skólanum?“
„Ég sagði þér að ég notaði ekki
ókunnug klósett.“ Pétri leið ekki vel. Einungis fólk sem einhvern tímann hefur
drukkið heila vatnskönnu með hádegismatnum getur ímyndað sér hvernig ástandið á
honum var.
„Hvað ætlarðu þá að gera? Hlaupa
heim?“
„Get. Það. Ekki.“
„Nei.“ Stefanía stansaði. „Ekki
segja mér að þú ætlir að pissa á þig. Viljandi. Þá er ég
farin.“
„Auðvitað ekki,“ hvæsti hann.
Stefanía hnussaði. „Við förum til
Aðalheiðar. Útrætt mál.“ Hún ætlaði að taka um handlegg Péturs og draga hann af
stað en hann vék sér undan.
„Slæm hugmynd,“ muldraði hann. „Gæti
misst eitthvað.“
En hann lét til leiðast og fylgdi
Stefaníu í gegnum limgerðið sem umkringdi yfirgefnu lóðina. Hún bankaði og
nornin kom til dyra.
„Á slaginu,“ sagði hún. „Eins og venjulega.
Hvað er nú að sjá þig?“ Hún leit á Pétur.
„Klósettneyðartilvik,“ útskýrði
Stefanía.
Nornin hleypti þeim inn og hófst svo
handa við að gramsa í einni eldhússkúffunni.
„Hérna,“ sagði hún og rétti Pétri
rauðan pott með blómamynstri og tveimur handföngum.
„Hvað á ég að gera við þetta?“
stundi Pétur og dansaði til og frá.
„Nú, míga í hann auðvitað.“
„En ...“
Nornin otaði pottinum að honum. „Mér
sýnist þú ekki hafa um neitt að velja. Það eru annaðhvort buxurnar eða
potturinn.“
Pétur þreif pottinn til sín með
vanþóknun og fór með hann út í horn. Sem betur fer var potturinn stór því Pétri
var mikið mál. Þegar hann var búinn lagði hann pottinn á eldhúsborðið.
„Ekki skilja þetta eftir hér.“
Nornin bandaði frá sér hendinni. „Farðu út og helltu úr honum.“
„Hvert?“
„Hvert sem er.“
„En ...“
„Teldu bara tuttugu skref og snúðu
honum svo á hvolf.“
Þetta er allt saman kolvitlaust,
hugsaði Pétur þegar hann gekk tuttugu skrefin aftur heim að kofanum.
Snældugalið. Hann varð þó að viðurkenna að það var góð tilfinning að vera ekki
lengur í spreng.
„Þú ættir að fá þér klósett,“ sagði
hann við nornina þegar hann steig aftur inn í eldhúsið. „Þetta gengur ekki
svona.“
„Gengur vel fyrir mig,“ sagði
nornin. „Þar að auki er ekkert vatn í húsinu eins og þú veist vel og ég kæri
mig ekki um að hafa kamar undir vaskinum. Fnykurinn er nógu slæmur fyrir.“
Pétur var sammála. Lyktin inni í
kofanum varð verri með hverri heimsókninni. Sambland af blautum hundi, reyk og
skemmdum mat.
„Það þarf að kippa þessu í lag,“
sagði Pétur ákveðinn. „Og ef þú gerir það ekki þá geri ég það.“
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.