En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

14. „Litli Stúfskratti!!“

Guðrún læddist náföl út af bókasafninu. Hafði hana verið að dreyma? Ef hana hafði verið að dreyma var engin spurning um að þetta væri martröð. Hún gekk hægum skrefum í átt að heimastofunni sinni og fékk sér sæti við hliðina á Sunnu sessunaut sínum. Þó svo að bjallan væri ekki búin að hringja setti Guðrún hendur undir borð og sagði ekki orð.

 „Er allt í lagi Guðrún mín,“ spurði Una umsjónarkennari sem var að skrifa dagskrá dagsins á töfluna með rauðum tússi.
 „Já, allt í lagi,“ laug Guðrún. Ekki gat hún sagt Unu umsjónarkennara að Jólakötturinn sjálfur hefði klórað hana. Ef hún myndi segja frá, væri það ekki lengur hernaðarleyndarmál. Og ef það væri ekki lengur hernaðarleyndarmál myndi Guðrún skemma jólin. Ekki vildi Guðrún það. Nei, hún vildi sko ekki skemma jólin.
 „Ertu ekki spennt vinan?“ spurði Una umsjónarkennari.
 „Jú, jú,“ svaraði Guðrún annars hugar. Svo horfði hún á Unu og spurði: „Spennt fyrir hverju?“ „Foreldradeginum auðvitað! Ætla mamma og pabbi ekki að koma?“
 „Uuuu... ég held að pabbi komi.“ Guðrún hafði steingleymt að í dag væri foreldradagur í skólanum. 3. UHJ, bekkurinn hennar Guðrúnar, hóf daginn í heimilisfræði. Þar máluðu þau piparkökur fyrir foreldra sína, hituðu kakó og þeyttu nóg af rjóma. Guðrún vissi að mamma væri að vinna svo hún málaði bara tvær piparkökur. Hún málaði glugga á aðra þeirra af því að pabbi elskaði að gægjast inn um glugga og svo teiknaði hún kisu á piparkökuna sem ætluð var henni sjálfri. Þetta var ekki mynd af litla sæta kettlingnum sem bjó í næstu blokk. Nei, þetta var teikning af stóra, flotta kettinum sem bjó í kjallaranum: jólakettinum.

 Eftir heimilisfræði fóru krakkarnir í 3. UHJ aftur í heimastofuna sína og biðu eftir gestunum. Stuttu seinna örkuðu foreldrarnir inn, sumir á útiskónum þótt það væri stranglega bannað að vera inni á skónum. Una umsjónarkennarinn sagði samt ekki neitt við foreldrana, því eins og flestir var hún dálítið hrædd við fullorðið fólk. Guðrún leit í kringum sig, allir foreldrarnir voru komnir, allir nema pabbi hennar. Hafði hann gleymt foreldradeginum?

 Una bað um þögn í stofunni.
 „Kæru foreldrar og börn,“ sagði hún en komst ekki lengra. Einhver var að rífast á ganginum fyrir utan stofuna. Guðrún lagði við hlustir:
 „Vilt þú ekki bara reyna að stækka þarna litli Stúfsskratti?!“ heyrðist í reiðilegri rödd sem Guðrún þekkti of vel.
 „Ef að það kemst upp um okkur er það þér að kenna!“ var öskrað á móti.

Guðrún var stjörf. Hún læddist út úr stofunni. Þarna var hann, pabbi hennar Guðrúnar. Hann var öskureiður og stóð með kreppta hnefa á móti lágvöxnum karli með skotthúfu.
 „Pabbi!?“ argaði Guðrún. Hún fann tár leka niður kinnar sínar.
 „Ó-ó engillinn minn,“ svaraði pabbi taugaóstyrkur, „é-é-ég var bara að bjóða Stúf góðan daginn.“ „Góðan daginn,“ sagði lágvaxni karlinn með skotthúfuna.    

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.  
                 

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!