.

13. desember
Kæru Leó og Katla

takk fyrir bréfið. Ef jólaandakristallinn er orðinn rauður eins og þið segið, þá er lítið sem þið og við getum gert. Ég er ekki klár á svona tækni apparöt en ég held ég hafi tekið eina sjálfu, þó er ég hræddur um að það verði ekki nóg. Eina von okkar núna er að töfrar jólanna sendi okkur kraftaverk.

Þið trúið á okkur bræðurna og svo lengi sem þið trúið þá erum við fjölskyldan örugg gegn sólinni. Ég hef ekki áhyggjur því ég trúi á ykkur. Gleðileg jól.
Frá Giljagaur


Leó les bréfið upphátt fyrir Kötlu og sýnir henni svo símann sinn.

 „Sjálfan heppnaðist ekkert rosalega vel,“ segir hann.

Á skjánum sést loðinn skuggi og smá hluti af rauðum búningi sem vettlinguðum putta Giljagaurs tókst ekki að hylja.

 „Æ, þar fór í verra,“ segir Katla „nú höfum við ekkert til að sýna hinum krökkunum.“

 „Við finnum aðra leið í kvöld en viltu ekki sjá hvað við fengum í skóinn?“ spyr Leó og bendir á skóna í glugganum.

 „Jú, heldur betur,“ segir Katla og stekkur að skónum. Katla fékk rauðan spilastokk og Leó fékk teningaspilið Yatzy.

Í dag er óhefðbundinn dagur hjá Kötlu í skólanum því bekkurinn hennar byrjar að undirbúa jólasveinaleikritið. Þau hafa öll fengið hlutverk sem þau eru sátt við. Katla leikur Askasleiki en Margrét, Tindur og Anna, bekkjarsystir þeirra, hafa skipt með sér erindunum í ljóði Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana. Krakkarnir sem leika jólasveina munu fá rauða jólasveinajakka og jólasveinahúfur sem textílmenntakennarinn saumaði fyrir nokkrum árum en þau þurfa sjálf að búa til skegg og leikmuni. Kristín kemur með búningakassa fyrir þau tvö sem leika Grýlu og Leppalúða og upplesarana því leikritið á að gerast í gamla daga, áður en jólasveinarnir fóru að gefa gjafir í skó. Katla föndrar skegg úr pappír. Hún gerir skeggið sérstaklega langt og úfið því í ljóðinu segir: „Hann fram undan rúmunum, rak sinn ljóta haus.“ Katla skilur það sem svo að hann hafi verið með illa greitt skegg. Því næst finnur hún brúnt blað og býr til askinn hans Askasleikis.

Leikmyndin er langt frá því að verða tilbúin svo allir sem hafa klárað skeggin sín og leikmuni hjálpa þeim sem eru að vinna í leikmyndinni. Það þarf að búa til eldhús, fjós og fjall en einnig nokkrar kindur og kú. Katla finnur pappakassa og hvíta málningu, hún teiknar kind á kassann með blýanti og sker svo út lappir og notar afgangana til að búa til haus. Hausinn festir hún með því að skera rauf á efri hluta kassans og troða honum þar ofan í. Hún notar smá límband til að tryggja hausinn, síðan málar hún kindina hvíta og teiknar á hana andlit.

Í frímínútum gerir Katla snjókarl ásamt Margréti og alveg óvænt kemur Gabríel til þeirra og vill vera með. Þau þrjú búa til stærsta og flottasta snjókarl sem hefur nokkurn tímann staðið á þessari skólalóð.

Um kvöldið finnur Leó gamla upptökuvél sem mun vonandi fanga Stúf á myndband, sú áætlun getur ekki farið úrskeiðis, eða hvað?

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður