En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

13. Hernaðarleyndarmál!

Guðrún vissi að eina leiðin til að komast að sannleikanum væri að ræða við Lenu bókasafnsvörð. Lenu Leiðindaskjóðu. Lena hafði lesið óteljandi bækur og kunni trúlegustu sögur sem til voru. Ef einhver vissi hina sönnu sögu af Jólakettinum væri það Lena. Áður en bjallan hringdi hraðaði Guðrún sér á skólabókasafnið. Þar sat Lena í makindum sínum og gluggaði í bækur um jólasveina.

 „Afsakið, má ég spyrja þig að einu?“ spurði Guðrún.
 „Já vinan.“ Lena leit upp úr bókinni.
 „Ég var aðeins að spá.“
 „Lát heyra, gullið mitt.“
 „Getur verið?“ Guðrún hikaði. Hún lækkaði róminn og hélt áfram: „Getur verið að jólakötturinn hafi ekki drepist úr barnahungri?“
 „Látum okkur nú sjá,“ ansaði Lena. Hún kom gleraugum kyrfilega fyrir á nefinu á sér.
 „Allar sögur segja nú að hann sé löngu dauður,“ útskýrði Lena.
 „Heldurðu að það sé alveg satt?“

 Lena leit í kringum sig. Hún benti Guðrúnu að koma nær og sagði ofurlágt: „Aðrar upplýsingar benda til þess að hann sé sprelllifandi.“
 „Sprelllifandi?!“ endurtók Guðrún og gapti.
 Lena stóð upp og lokaði dyrunum á bókasafninu. Hún ræskti sig sagði ofurlágt:
 „Í mörg ár hefur sú flökkusaga gengið manna á milli að Grýla, Leppalúði og jólakötturinn hafi alls ekki drepist úr barnahungri. Þvert á móti hafi þau gert samning við forseta Íslands um að fá að lifa í mannheimum. Í samningnum segir að lofi Grýla, Leppalúði og jólakötturinn að borða aldrei framar barnakjöt, fái þau frelsi til að lifa í sátt og samlyndi við mannfólkið í landinu.“

 „Þannig að það getur verið að þau búi í mannheim...“
 „Suss vinan, ekki grípa fram í.“ Lena hélt áfram: „Samningur þessi er hernaðarleyndarmál. Mannfólkið í landinu má alls ekki komast að því hvar tröllskessan Grýla, karlræfillinn hann Leppalúði og jólakötturinn búa. Ef leyndarmálið kemst upp verður það ekki lengur hernaðarleyndarmál. Og ef það er ekki hernaðarleyndarmál er hætta á því að einhver skemmi jólin! Ef mannfólkið kemst að því hvar tröllahjúin eru niðurkomin gæti fólkið líka komist að því hvar jólasveinarnir eiga heima, þeir eiga auðvitað alltaf heima nálægt foreldrum sínum.“
 „Eiga jólasveinarnir líka heima í mannheimum?“ spurði Guðrún.
 „Ég er bara að segja þér söguna sem ég heyrði. En ef fólk fattar hvar jólasveinarnir eiga heima, munu þjófar örugglega stela gjöfunum sem eiga að fara í skóna hjá öllum börnunum í landinu.“
 „Ó, nei! Fá börnin þá ekki neitt í skóinn?“
 „Nei, þá fær ekkert mannsbarn í skóinn.“ Guðrún varð stjörf og hvíslaði: „Ef ekkert mannsbarn fær í skóinn, verða jólin ónýt, er það ekki?.“
 „Jú, ef einhver segir fólkinu í landinu frá hernaðarleyndarmálinu getur sá hinn sami skemmt jólin!“
 Lena sendi Guðrúnu alvarlegt augnaráð.

 „En Lena, ég he-he-held,“ stamaði Guðrún svo lágt að hún var ekki viss hvort Lena heyrði í henni. „Ég held að ég hafi kannski hitt jólaköttinn.“
 „Ef svo er…,“ Lena setti vísifingur á varir sínar og lækkaði róminn, „… ef svo er þá hefur þú komist að hernaðarleyndarmálinu. Þú mátt ekki segja nokkrum lifandi manni frá verustað þeirra, ef þú segir fólki frá getur þú skemmt jólin. Guðrún ætlar þú nokkuð skemma jólin?“  

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!