„Færðu engin
jólakort?“ spurði Pétur nornina nokkrum dögum eftir göngutúrinn með Lubba. Hann
talaði ekki mjög hátt því hann var enn örlítið smeykur.
„Það veit ég ekkert um.“
„Þú hlýtur að vita það,“ sagði
Stefanía.
„Ég er í felum,“ sagði nornin. „Svo
jafnvel þótt einhver vildi skrifa mér jólakort þá vissi sú indæla manneskja
ekki hvert hún ætti að senda það.“
„Hvað ertu eiginlega að gera sem er
svona merkilegt?“ spurði Stefanía. „Jólin eru bara einu sinni á ári.“
„Var ég ekki búin að segja ykkur að
það er leyndarmál?“ sagði nornin hvassri röddu.
„Þú ert heldur heldur ekki með neina
bréfalúgu,“ sagði Pétur. „Eða póstkassa.“
„Ég þarf ekki á svoleiðis að halda,“
sagði nornin önug.
Stefanía greip andann á lofti.
„Notarðu kannski uglur?“
„Uglur til að senda bréf?“ Nornin
hnussaði. „Þvílík vitleysa. Þær eru afleitir bréfberar. Hafa ekki áhuga á neinu
nema veiða mýs.“
„En ég hef lesið að galdrafólk ...“
„Það er bara skáldskapur. Allar
nornir sem ég þekki nota póstkassa. Það eru reyndar göldróttir póstkassar en
það kemur út á eitt. Engar uglur.“
„Ég gæti búið til póstkassa handa
þér,“ muldraði Pétur og roðnaði. „Það er einn smíðatími eftir í skólanum fyrir
jól.“
„Það er fallega hugsað en algjör
óþarfi.“
„Þú veist ekkert um það,“ sagði Stefanía.
„Kannski er fullt af bréfum á leiðinni til þín sem vita ekkert hvert þau eiga
að fara.“
„Jæja, þá það, smíðaðu handa mér
póstkassa,“ sagði nornin í uppgjafartón. „Kannski fær Lubbi bréf. Hann er svo
vinsæll.“
Lubbi dillaði skottinu glaður á svip
og slefaði á buxurnar hans Péturs.
„Hvaða nafn á að vera á kassanum?“
spurði Pétur. Honum fannst ómögulegt að þar stæði bara Nornin í eldhúsinu.
Það var eins og heima hjá honum stæði Nemandinn í svefnherberginu. Það
gengi engan veginn upp.
„Lubbi.“
„En ef einhver ætlar að senda þér
jólakort?“ sagði Stefanía.
„Aðalheiður Jónsdóttir, svoleiðis er
ég uppnefnd af fólki sem veit ekki að ég er norn.“
Um varir Stefaníu lék sigurglott.
„Ég hélt að hún ætlaði aldrei að
segja okkur hvað hún héti,“ sagði hún við Pétur á leiðinni heim. „Ég bjó sko
til jólakort handa henni í skólanum en mig vantaði nafn til að setja á
umslagið.“
„Hvers vegna spurðirðu hana ekki
bara beint?“ spurði Pétur ringlaður.
„Það væri allt of augljóst,“ svaraði
Stefanía. „Jólakort eiga að koma á óvart.“
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.