.

12. desember
Katla nuddar stýrurnar úr augunum og lítur út um gluggann, í gluggasyllunni eru tveir skór og það er komið eitthvað í þá báða. Katla stekkur upp og hleypur að glugganum „Leó! Leó! Sjáðu hvað Stekkjastaur gaf okkur hann ga…. ó, nei! Leó við sofnuðum, Stekkjastaur veit ekki ennþá að hann er í hættu.“

Leó hrýtur.

„Leó, vaknaðu,“ segir Katla og ýtir við bróður sínum. Frammi á gangi heyrir hún í pabba sínum. „Góðan daginn Katla, hvernig svafstu? Katla? Hvar ertu?“ Grímur kemur inn til Leós „Leó veistu um Kötlu? Hún…,“ hann kemur auga á Kötlu. „Þarna ertu. Svafstu hér í nótt?“ „Já, við vorum … bara … svo spennt að fá Stekkjastaur í heimsókn,“ segir Katla og brosir til pabba síns.

 „Hvað gaf hann ykkur í skóinn?“ spyr Grímur.

 „Mandarínu!“ gólar Katla og sýnir honum girnilega mandarínu.

 Leó hrekkur upp „Huh?“ hann er mjög áttaviltur.

 „Góðan daginn Leó, það er kominn dagur,“ segir Grímur „og glaðningur frá Stekkjastaur bíður þín í skónum,“ bætir hann við og bendir á gluggann.

 „Sofnuðum við?“ spyr Leó en Katla reynir að sussa á hann með svipbrigðum.

 „Ég ætla rétt að vona það, því annars kemur jólasveinninn ekki,“ segir Grímur. „Farið í föt og komið svo niður að borða,“ segir hann og fer niður.

 „Heyrðirðu þetta? Ef við erum vakandi þá kemur enginn jólasveinn,“ segir Katla áhyggjufull. „Við verðum að finna aðra leið til að vara þá við,“ segir hún og dregur dýnuna sína inn í herbergið sitt.

Skóladagurinn er lengi að líða því Katla vill helst vera heima að skipuleggja komu Giljagaurs. Eftir skóla fer hún á kóræfingu ásamt Margréti og Tindi. Þau eru löngu byrjuð að æfa jólalögin fyrir jólaskemmtunina. Kórstjórinn gefur þeim merki og þau byrja að syngja:

 „Ég sá mömmu kyssa jólasvein, við jólatréð í stofunni í gær…“

Þegar Katla æfir þetta lag heima syngur hún alltaf:

 „Ég sá pabba kyssa jólasvein, við jólatréð í stofunni í gær…“

Einu sinni söng hún það óvart á kóræfingu en kórstjóranum fannst það svo skemmtilegt að hún bætt við einu erindi svo nú enda þau lagið á:

 „…já sá hefði hlegið með, hann pabbi minn hefð’ann séð, pabba kyssa jólasvein í gær.“

Katla kveður Tind og Margréti eftir æfingu og flýtir sér heim, hún og Leó þurfa að gera áætlun fyrir kvöldið. Systkinin passa að segja ekkert við kvöldverðarborðið en halda síðan leynifund uppi í herberginu hans Leós. Þau ákveða að skrifa bréf:

Kæri Giljagaur

Við erum með slæmar fréttir fyrir þig og fjölskylduna þína. Jólaandakristallinn er rauður, sem þýðir að fólk er hætt að trúa á töfra jólanna og farið að gleyma kærleikanum. Ef fólk fer ekki að trúa fljótlega þá verður sólin aftur eitruð tröllum og þið gætuð orðið að steini.

Við viljum hjálpa ykkur svo okkur datt eitt bráðsniðugt í hug. Við skiljum eftir síma svo þú getir tekið sjálfu sem við munum svo sýna krökkum til að sanna fyrir þeim að þið bræður séu raunverulega til.

Kær kveðja,


Leó og Katla

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður