Pétur og
Stefanía heimsóttu nornina reglulega næstu daga. Pétur var enn svolítið
óöruggur í kringum hana en nærvera Lubba bætti upp fyrir það.
„Ég held að þú sért orðinn
jafnhrifinn af hundinum og hann af þér,“ sagði nornin dag einn þegar þau sátu
þrjú saman við eldhúsborðið og borðuðu kaldan örbylgjugrjónagraut með kakói.
„Lubbi er fínn,“ muldraði Pétur.
„En hann er svo stór,“ sagði
Stefanía.
„Þannig eru Sankti-Bernharðshundar,“
sagði nornin og klóraði Lubba á bakvið eyrun.
„Risavaxnir. Ég þori varla með hann
í göngutúr núorðið. Hann gæti tekið upp á því að draga mig eins og snjósleða ef
þannig lægi á honum.“
„Við gætum farið með hann út fyrir
þig,“ stakk Stefanía upp á.
„Ég veit það nú ekki,“ sagði nornin
efins.
„Ég æfi handbolta og er sterkust í
liðinu. Og svo eru Pétur og Lubbi bestu vinir.“ Stefanía var svo spennt að hún
hlustaði ekki á nein mótmæli. Pétur langaði líka mikið að fara út að ganga með
Lubba svo hann sat bara hljóður og kláraði grautinn sinn á meðan Stefanía
sannfærði nornina.
„Hann er orðinn svolítið þreyttur á
því að ganga í hringi hérna á lóðinni,“ sagði nornin að lokum. „Eflaust hefði
hann gott af því að fá meiri hreyfingu.“
„Þá förum við með hann út eftir
skóla á morgun,“ sagði Stefanía og þar með var það ákveðið.
„Farið varlega,“ kallaði nornin á
eftir krökkunum þegar þau skunduðu af stað með Lubba daginn eftir. „Og ekki
vera of lengi.“
„Jájá,“ kallaði Stefanía á móti.
Krakkarnir héldu bæði í tauminn en
það var varla nóg. Lubbi var svo sterkur að hann hefði auðveldlega getað dregið
þau hvert sem hann vildi. Sem betur fer var hann svo göfugur að hann reyndi
ekkert slíkt. Ekki nema einu sinni þegar hann dró þau bæði upp flughála brekku
eins og þau væru ekki þyngri en snjókorn. Einu vandræðin sem komu upp var þegar
Lubbi fann sér þúfu til að kúka á. Skíturinn var svo mikill að það þurfti tvo
plastpoka til að fjarlægja hann. Það var erfitt verk því fýlan var óbærileg.
Þegar Stefanía og Pétur sögðu norninni frá þessum hörmungum hló hún svo
innilega að hrafn sem sat í nálægri ösp og ræddi við sjálfan sig hrökk í kút og
datt niður af greininni sinni.
Svona er að eiga norn sem nágranna.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.