En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

12. „ Dö-dö-dauður.“

Guðrún starði á Lepp og Skrepp sem töluðu hvor ofan í annan.
 „Þetta hljómar dálítið eins köttur úr ævintýri.“ Guðrún leit til skiptis á bræðurna.
 „Ævintýri?
 Ert þú nú ekki búin að horfa of mikið á sjónvarp Guðrún?“ spurði Skreppur og skellti upp úr.
 „Þetta hljómar dálítið eins og jólakötturinn,“ sagði Guðrún.
 „Hann er dö-dö-dauður,“ muldraði Leppur.
 „Steindauður!“ tuldraði Skreppur.
 „Þegar manneskjur deyja fara þær alla leið til himna,“ útskýrði Leppur.
 „Eða helvítis,“ skaut Skreppur inn í.
 Guðrún varð hugsi.
 „En hvert fara kisur þegar þær deyja?“ spurði Guðrún.
 „Kannski til mannheima?“ skríkti Skreppur. Hann veltist um af hlátri. Leppur sló í hnakkann á bróður sínum og öskraði á hann: „Hættu þessu bulli!“ Svo róaði hann sig niður og sagði hátt og skýrt: „Hvernig eigum við að vita hvert kisur fara þegar þær deyja? Við höfum aldrei dáið. Aldrei! Auk þess erum við ekki kettir. Síst af öllu jólakettir!“

 Skreppur kinkaði kolli og útskýrði: „Sagan segir auðvitað...,“ hann hikaði, starði á bróður sinn og hélt svo áfram: „Hún segir auðvitað að Leppalúði, Grýla og jólakötturinn séu öll dáin, en...“
 „Uuuuss!!“ Leppur sló bróður sinn í hnakkann.
 „En eitt get ég sagt þér,“ hvíslaði Skreppur og bætti við: „Þau myndu aldrei borða tröllabarn eins og þig.“

Guðrún leit á fingur sína. Þeir voru kannski örlítið stærri en á öðrum börnum, dálítið tröllvaxnir. Guðrún vissi samt að það væri bara eðlilegt, mamma sagði það alla vega. Mamma sagði að öll börn væru ólík og margir ættu enn eftir að stækka.

 „Ég er ekki tröllabarn!“ sagði Guðrún ákveðin.
 „Allt í lagi þá,“ svaraði Leppur, „bless, bless litla mannsbarn.“
 „En ekki hafa áhyggjur!“ hrópaði Skreppur og bætti við: „Jólakötturinn étur heldur ekki mannsbörn, ekki lengur.“
 „Ekki lengur?“ spurði Guðrún taugaóstyrkri röddu.
 „Nei, kartöflukássa er núna uppáhaldið hans...,“ sagði Skreppur en hann náði ekki að klára. Leppur togaði í bróður sinn og tók fyrir munninn á honum. „MMmaamaapabbrdddrrr,“ heyrðist í Skrepp í gegnum fingurna á Lepp.
 „Skrambinn Skreppur!“ hvæsti Leppur.
„Þú mátt ekki segja henni! Þú mátt ekki segja neinum!“
 „Segja mér hvað?“ spurði Guðrún æst.
 „Obb, bobobb,“ söng Leppur, „við þurfum að þjóta.“

 Því næst greip Leppur í höndina á bróður sínum og dró hann í burtu. Bræðurnir hlupu af stað á ísilagðri gangstéttinni. Guðrún kallaði á eftir þeim: „Það er hættulegt að hlaupa í hálku!“
Hún hafði varla sleppt orðinu þegar Skreppur rann um bróður sinn. Hann skall kylliflatur á gangstéttina og togaði Lepp með sér.
 „Skrambinn Skreppur!“ heyrðist í Lepp.
 „Áts, Leppur!“ hrópaði Skreppur.
 Bræðurnir stóðu upp og skakklöppuðust saman að aðalinngangi skólans.
 Guðrún var ringluð. Hvað áttu bræðurnir við þegar þeir sögðu að jólakötturinn æti ekki lengur börn? 

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!