Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Á Íslandi

Urður hafði drifið sig upp rúm um leið og kvöldmaturinn var búinn. Kyssti og knúsaði mömmu og pabba í flýti og hálf ýtti pabba út áður en hann kláraði söguna sem hann var að lesa fyrir hana. Stekkjastaur var nefnilega á leiðinni og hún ætlaði að drífa sig að sofna. Reyndar átti hún pínu erfitt með það. Hugsanir um lítinn álf voru að flækjast fyrir henni.

Smjörið hafði virkað. Reyndar hafði álfurinn skilið eftir ummerki  þennan morgunn. Haframjölsslóð á eldhúsborðinu. En að þessu sinni var hægt að lesa úr slóðinni TAK.

Urður bylti sér. Fyrst hafði hún hafði hlustað á mömmu og pabba sýsla frammi, svo hafði hljóðnað, ljósunum fækkað og lágvært suð frá sjónvarpinu barst inn í herbergið. Hún var þreytt. Hún kíkti í gluggann. Hún var svo spennt.

Skyndilega heyrðist skarkali.

Urður hrökk við. Hafði hún blundað? Það var alveg algjört myrkur og það heyrðist ekkert frá sjónvarpinu. Foreldrar hennar greinilega farin að sofa.

,,Af hverju ertu með dót út um allt? Kanntu ekki að taka til?”

Á skrifborðinu sá hún veruna litlu. Álfinn. Á gólfinu fyrir neðan hann lágu litir dreifðir yfir kubbahrúgu. Hann hafði rekist í pennaveskið sem valt og innihaldið dreifst yfir dótahrúguna sem fyrir var á gólfinu.

Urður ranghvolfdi augunum. Það var nú alveg nóg að mamma og pabbi nöldruðu yfir þessu.

,,Mamma sagði að þú hlytir að vera ekta danskur álfur, fyrst þú vilt smjör á grjónagrautinn!” Hún virti athugasemdirnar um draslið að vettugi.

,,Hvað ætti ég að vera annað en danskur álfur?” spurði álfurinn og virtist hneykslaður.

,,Ehh íslenskur? Flestir sem búa á Íslandi eru íslenskir. Eða þú veist maður má alveg vera ekki íslenskur og bara búa á Íslandi af því að mann langar það. Ég átti heima í Danmörku og samt var ég íslensk líka þá!” romsaði Urður upp úr sér.

Það var þögn í dágóða stund þar til álfurinn sagði lágt: ,,Er ég á Íslandi?” Álfurinn sagði ekki meir. Bíll keyrði hægt framhjá. Í birtunni frá framljósunum sá Urður glampa í augnkrókunum og lítið tár sem rann niður kinn.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað