.

11. desember
Stekkjastaur opnar augun og teygir úr sér, hann rekur óvart hnefann upp í gapandi munn Bjúgnakrækis sem kippist við og gefur Askasleiki olnbogaskot í magann. Askasleikir æpir af sársauka og þar með eru allir jólasveinarnir vaknaðir. Svona vakna þeir furðu oft, bræðurnir. Það gerist vegna þess að þeir kúra allir saman í einu bæli sem þeir eru löngu vaxnir upp úr. Grýla hefur margoft reynt að fá þá til að sofa eina í sínum herbergjum en þeim finnst lang best að sofna saman í þessu gamla og slitna bæli.

Bræðurnir fara í föt og tínast fram í eldhús. Síðust á fætur er svo Grýla. Grýla verður alltaf hálf döpur á þessum tíma árs því henni finnst erfitt að kveðja strákana sína en það sem hún veit ekki er að bræðurnir ætla að koma henni á óvart áður en Stekkjastaur fer. „Hérna, mamma, þettta er til þín frá okkur bræðrunum,“ segir Giljagaur og réttir mömmu sinni lítinn ferkantaðan pakka.

 „Þetta er aldeilis óvænt, jólin eru ekki fyrr en eftir tvær vikur,“ segir Grýla og hristir pakkann harkalega til þess að komast að innihaldinu.

„Mamma, passaðu þig, þetta er brothætt,“ segir Stúfur órólegur.

 „Brothætt segirðu, hvað getur þetta verið?“ muldrar Grýla og fer að rífa gjafapappírinn varlega af pakkanum. Lítill kassi dettur í kjöltuna á Grýlu og ofan í honum er splúnkunýr snjallsími. Grýla tekur upp símann með tveim loðnum fingrum og starir gáttuð á tækið.

 „Og hvaða undarlega apparat er þetta?“ spyr hún.

 „Þetta er sími svo þú getir hringt í okkur meðan við erum í bæjarhelli,“ segir Stekkjastaur.

Grýla rekur upp skellihlátur. „Sími?! Hvað eruð þið búnir að gera núna? Sérðu þetta Lúði þeir kalla þetta síma!“ Hún rekur símann óvart í Leppalúða svo hann dettur í gólfið, allir bræðurnir taka andköf, Stúfur hleypur að símanum og sér að sem betur fer er hann ennþá heill.

 „Ég ætla að teikna fyrir þig gott hulstur áður en þú skemmir símann en ég skal kenna ykkur á þetta … apparat seinna í dag. Nú þurfum við að kveðja Stekkjastaur.“

 „Já, alveg rétt ég þarf að drífa mig ef ég á að heimsækja jólaball áður en ég dreifi gjöfunum,“ segir Stekkjastaur.

Í skólanum hefur tríóið Katla, Leó og Gabríel gert áætlun til að stela Leyndardómum jólanna eða eins og Katla kallar áætlunina: „Fá hana lánaða í leyfisleysi.“

Katla ætlar að plata konuna á bókasafninu burt svo Leó og Gabríel geti fundið lyklana að skápnum og náð bókinni. Leó á að standa vörð á meðan Gabríel leitar að lyklunum. Gabríel leitar og leitar en finnur ekki lyklana. Leó treystir honum ekki og gleymir þá sínu hlutverki. Allt í einu kemur bókasafnskonan til baka og strákarnir stökkva á bak við skrifborðið hennar. Í óðagotinu rekst Leó í skrifborðsstólinn og hringl í lyklum heyrist úr vasa úlpu sem hangir á stólnum. Gabríel fórnar sér fyrir teymið og lætur viljandi góma sig svo Leó geti náð bókinni.

Á síðunni um liti jólaandakristalsins stendur:

Grænn: Best er að hafa jólaandakristalinn grænan, það merkir að margir trúi á sanna jólatöfra og mikill kærleikur ríki í samfélaginu.

Gulur: Það þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af gulum jólaandakristal. Trú mannfólksins er ennþá sterk en gulur kristall gæti gefið til kynna að mannfólkið þurfi áminningu um mikilvægi kærleika.

Rauður: Ef jólaandakristallinn er rauður þá eru jólin í stórhættu. Margir hafa misst trúna á töfra jólanna og mannfólkið gleymir að sýna hvert öðru kærleika.

Svartur: Ef jólaandakristallinn missir ljósið varanlega og verður kolsvartur er öll von úti og aðeins öflugt kraftaverk getur bjargað jólunum núna.


 „Ó nei! Jólin eru í stórhættu og jólasveinarnir hafa ekki hugmynd um að þeir gætu orðið að steini í næsta sólarljósi!“ hrópar Katla í mikilli örvæntingu. „Við verðum að láta þá vita Leó, við verðum!“

Um kvöldið setja krakkarnir skóna sína út í gluggann hans Leós, Katla dregur dýnuna sína yfir í herbergið hans og býr um sig á gólfinu. Þau ætla að vaka eftir Stekkjastaur til að segja honum fréttirnar en eftir langa bið í myrkrinu fer þreytan að segja til sín og systkinin byrja að dotta.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.
Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður