Pétur stóð í
skjóli Stefaníu þegar hún bankaði á ísskápshurðina á kofa nornarinnar. Dyrnar
opnuðust til hálfs en þegar nornin sá hver stóðu fyrir utan flýtti hún sér að
sópa krökkunum inn. Þar tók Lubbi á móti þeim með fagnaðarlátum.
„Hérna er maturinn,“ sagði Stefanía
og lagði pokann úr búðinni á gólfið. Lubbi stakk trýninu á bólakaf ofan í hann
en nornin stuggaði við honum.
„Jahérna,“ sagði hún. „Ég bað ykkur
bara um að kaupa svolítið kaffi, ekki hálfa búðina.“
„En þú átt engan mat,“ sagði
Stefanía. „Ísskápurinn er alveg tómur.“ Hún benti á hurðarlausa ísskápinn í
horninu.
„Ég á hundamat,“ sagði nornin. „Hann
og kaffi eru nóg fyrir okkur Lubba.“
„Jæja þá,“ sagði Stefanía. „En ef þú
færð gesti geturðu allavega gefið þeim kakó og ljúgu.“
„Bjúgu,“ skaut Pétur inn í.
„Já, það,“ sagði Stefanía.
„Þið hafið hugsað fyrir öllu,“ sagði
nornin. „Var einhver afgangur?“
Stefanía dró fram peningapokann. Í
honum voru fjórir tíkallar.
„Eigið restina,“ sagði nornin. „Nú
svelt ég í það minnsta ekki fram að jólum,“ bætti hún við.
„Heyrðu,“ sagði Stefanía. „Pétur
sagði að þú værir norn.“
Pétur, sem hafði verið að klóra
Lubba á bakvið eyrun, hrökk við.
„Ég meinti bara ...“ Hann
eldroðnaði.
„Norn?“ sagði nornin í eldhúsinu
undrandi. „Auðvitað er ég ...“ Hún hikaði. „Auðvitað er ég norn. Hvað gæti ég
annað verið? Gullfiskur?“ Hún rak upp ósvikinn nornarhlátur. „Var það þess
vegna sem þú varst svona hræddur við mig?“ skaut hún að Pétri. „Hræddur um að
ég myndi éta þig?“ Hún hló ennþá hærra og Pétur fann hroll skríða niður bakið.
„Svoleiðis hefur engin norn gert síðan á tímum langömmu minnar.“ Pétri létti
stórum. „En þið megið ekki segja neinum frá,“ bætti nornin við.
„Að nornir borði ekki fólk?“ spurði
Pétur undrandi.
„Nei, að ég búi hérna,“ sagði
nornin.
„En það er magnað að þekkja norn,“
hrópaði Stefanía.
Nornin hugsaði sig um í svolitla
stund. „Ég er í miðju kafi í leynilegu verkefni og það má enginn vita af mér.
Skiljiði hvað ég er að fara?“
Krakkarnir kinkuðu bæði kolli. Pétur
skildi alveg hvernig það var að vilja fela sig.
„Ágætt,“ sagði nornin. „Jæja, farið
nú að koma ykkur heim. Ekki viljum við að foreldrar ykkar haldi að þið hafið
verið étin af úlfum eða breytt í froska, er það nokkuð?“
Pétur heyrði hláturinn bergmála
löngu eftir að dyrnar á kofanum lokuðust á eftir þeim Stefaníu, en í þetta
skipti fylgdi honum enginn hrollur. Hann hafði það á tilfinningunni að ævintýri
þeirra með norninni væru bara rétt að byrja.
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.