En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

11. „Skrambin Skreppur!“

Þegar Guðrún fór í frímínútur sama dag leitaði hún uppi Lepp og Skrepp.
 „Hvernig þekkið þið köttinn í kjallaranum?“ spurði Guðrún ákveðin.
 „Löng saga,“ ansaði Leppur.
 „Lengsta saga í heimi,“ muldraði Skreppur.
 „Lengsta saga sem nokkur maður hefur nokkurn tímann heyrt,“ ítrekaði Leppur.
 „Ég vil endilega heyra söguna,“ sagði Guðrún, „ég veit líka að þið þekkið konuna í kjallaranum.“ Hún mundi að konan hafði talað um Lepp og Skrepp. Hún hafði líka talað um Leiðindaskjóðu. Þeir þekktu konuna í kjallaranum greinilega. Ætli þeir hafi líka borðað barnasúpu? Guðrún átti erfitt með að trúa því að Leppur og Skreppur borðuðu börn. Hún átti enn erfiðara með að hugsa sér að Lena Leiðindaskjóða gæti borðað börn. Lena var svo vingjarnleg og bræðurnir voru svo letilegir að sjá að það hvarflaði ekki að Guðrúnu að þeir gætu gert flugu mein.

 „Jaaa, sko konan, hún heitir Grý-grý-grý…“ sagði Skreppur.
 „Hún heitir Gríma,“ Leppur greip fram í, „hún heitir Gríma.“
 „Gríma, Gríma, Gríma!“ endurtók Skreppur.
 „A, einmitt, ó, opposíattan,“ tautuðu Skreppur og Leppur hvorn ofan í annan.
 „En á þessi Gríma þennan stóra flotta kött?“ spurði Guðrún.
 „Já, eða nei, hann á sig sjálfur, er það ekki?“ muldruðu þeir.
 „Konan í kjallaranum segist vera skíthrædd við ketti.“
 „Einmitt. Hún er mjög hrædd við kisur,“ ansaði Leppur.
 „En ef hún á kött sjálf?“ Guðrún horfði á bræðurna til skiptis.
 „Varstu ekki að hlusta,“ fnæsti Skrekkur, „kötturinn á sig sjálfur!!“
 „Hún Gríma verður líka logandi hrædd þegar stóri ógnarlegi kötturinn er heima hjá henni! Hún lýgur ekki!“
 „Ég skil,“ sagði Guðrún, „ef hún er hrædd við köttinn, ætti ég kannski að bjóða honum að eiga heima hjá mér í staðinn. “
 „Nei!“ ansaði Leppur og hristi hausinn.
 „Það er mjög slæm hugmynd,“ svaraði Skreppur.
 „Það er versta hugmynd í heimi,“ muldraði Leppur.
 „Það er versta hugmynd sem nokkur maður hefur nokkurn tímann heyrt!“ ítrekaði Skreppur og bætti við: „Kötturinn má alls ekki búa með barni!“
 „Alls, alls ekki!“ Bætti Leppur við .
 „Af hverju ekki?“ spurði Guðrún.
 „Nú honum finnst börn svo bragðgóð,“ tautaði Skreppur.
 „Skrambinn Skreppur, haltu munninum á þér lokuðum!“ Leppur varð reiður.
 „Sko,“ skvaldraði Skreppur, „kötturinn borðar ekki alltaf börn, aðallega bara í desember, sko ef þau eru í gasalega gömlum fötum.“
 „Skrambinn Skreppur! Þú mátt ekki segja henni!“ argaði Leppur.
 „Áttu við,“ sagði Guðrún. „Áttu við að kötturinn sem býr í kjallaranum í húsinu mínu borði börn sem fái ekki nýja flík fyrir jólin?“

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!