.

10. desember
Katla verður glöð þegar kennarinn tilkynnir að þau ætli á bókasafnið og að þar megi allir velja sér skemmtilega bók að lesa. Katla leitar hátt og lágt í hillunum að bókinni Leyndardómar jólanna en hvergi er bókin sjáanleg. Að lokum fer Katla til konunnar sem vinnur á bókasafninu. Hún situr við skrifborð og er að vinna í tölvu.

 „Hæ, hvar er bókin Leyndardómar jólanna?“ spyr Katla.

 „Hún er ekki lengur í útláni,“ svarar konan án þess að líta af skjánum.

 „Ha, af hverju ekki? Það er mjög mikilvægt að ég fái að lesa hana,“ segir Katla.

Konan snýr sér að Kötlu. „Bókin er ekki í útláni því G… einhver krotaði í hana. Nú fær hana enginn fyrr en ég treysti ykkur krökkunum aftur fyrir dýrmætu bókunum mínum.“

Fyrir aftan konuna er stór skápur með glerhurðum, í gegnum glerið sér Katla bókina. Þetta eintak er ekki með jólaandakristal framan á kápunni en annars virðist það nokkuð heillegt. Katla reynir einu sinni enn að biðja fallega um bókina en konan haggast ekki. Katla neyðist til að finna aðra bók fyrir íslensku og fer grautfúl aftur upp í stofu með bekknum sínum.

Katla finnur Leó og segir honum slæmu fréttirnar.

 „Læst inni í skáp?“ Leó lítur undrandi á Kötlu. „Hver krotaði í hana?“

 „Mig grunar hver,“ segir Katla og horfir fyrir aftan Leó. Þar er Gabríel búinn að taka jólasveinahúfu af einhverjum krakka og sveiflar henni hátt utan seilingar eigandans.

 „Hvað gerum við þá?“ spyr Leó.

 „Við getum ekkert gert,“ segir Katla „við verðum bara að vona að jólin séu ekki í hættu. Rauður er örugglega góður litur, er það ekki?“

 „Ætli það ekki,“ segir Leó.

 Á hverju ári er haldin jólaskemmtun síðasta daginn fyrir jólafrí, þar sem kórinn syngur og krakkar eru með skemmtiatriði. Í ár á bekkurinn hennar Kötlu að sýna leikrit um jólasveinana en ekki eru allir jafn spenntir og Katla fyrir því. Margir gera grín að Kötlu því hún er ein af fáum sem trúir á jólasveinana. Hún grætur og hleypur fram. Þetta er ekki góður dagur. Hún finnur sér skot undir stiga, felur sig þar og grætur. Allt í einu heyrist rödd spyrja: „Er allt í lagi?“

Katla lítur upp og sér Gabríel krjúpa rétt hjá sér.

„Ekki þú, farðu,“ svarar Katla og snýr sér frá Gabríel.

„Ertu meidd, viltu að ég nái í kennara?“ spyr hann.

„Nei, ég vil bara vera ein,“ segir Katla og sýgur upp í nefið.

 „Allt í lagi,“ segir Gabríel og stendur upp.

 „Af hverju má ekki trúa á jólasveinana lengur?“ missir Katla út úr sér.

 „Ha?“ segir Gabríel og krýpur aftur hjá Kötlu.

Hún snýr sér við og lítur grátbólgnum augum á hann. „Ég sagði: Af hverju má ég ekki trúa á jólasveinana lengur? Enginn í bekknum mínum trúir lengur á jólasveinana og ef ég segist trúa er mér strítt eða ég kölluð smábarn.“

 Gabríel horfir skömmustulegur á hana og muldrar, „fyrirgefðu að ég kallaði þig smábarn.“

Nú getur Katla ekki hætt og heldur áfram: „Af hverju þarftu alltaf að vera vondur og skemma? Þú ert alltaf að eyðileggja fyrir öðrum, jólin gætu verið í hættu og þökk sé þér getum við ekki fundið leið til að bjarga þeim.“

 „Af því að ég kallaði þig smábarn?“ spyr Gabríel ringlaður.

 „NEI!“ æpir Katla. „Af því þú krotaðir í bókina um leyndardóma jólanna!“

 „Ó,“ segir Gabríel og veit ekkert hvað hann á að segja.

 „Af hverju, af hverju ertu svona mikið á móti jólunum?“ spyr hún.

Gabríel sest niður við hliðina á Kötlu og eftir smá þögn segir hann: „Vegna þess að foreldrar mínir rífast alltaf mest á jólunum.“

 Tár byrja að leka úr augum Gabríels. Hann reynir að þerra tárin en Katla klappar honum á bakið.

 „Mér þykir leitt að heyra það, en það þýðir samt ekki að þú megir vera vondur,“ segir hún.

 „Ég veit,“ segir Gabríel og þau sitja þegjandi saman þangað til hann segir: „Ég er líka smábarn. Ég trúi á jólasveinana.“

Katla brosir undrandi til hans. „Þú ert ekki smábarn þótt þú trúir á jólasveinana. Pabbar mínir trúa á þá og þeir eru rosa gamlir.“

Gabríel flissar og það gerir Katla líka. Svo verður Gabríel hugsi á svip og spyr Kötlu: „Af hverju sagðirðu að jólin væru í hættu?“

Katla segir honum frá jólaandakristalnum, bókinni um leyndardóma jólanna og skutlunni í Flórens.

„Mig langar að hjálpa ykkur. Ég veit hvernig við getum náð bókinni,“ segir Gabríel og þá hringir seinasta bjalla skóladagsins.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.



Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður