En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

10. kafli: Búðarferðin

„Ég á að fara beint heim,“ sagði Pétur.

            „En búðin er næstum í leiðinni,“ sagði Stefanía. „Sjáðu.“ Hún dró fullan poka af klinki upp úr skólatöskunni sinni. „Konan í kofanum lét okkur meira að segja fá peninga.“

            „Þú veist að hún er norn, er það ekki?“ sagði Pétur. „Við ættum ekki að koma nálægt henni aftur.“

            „Þvílík vitleysa.“ Stefanía ranghvolfdi í sér augunum. „Hún lítur alveg eins út og amma mín og amma er engin norn. Sko, ef fólk sem bjargar manni úr lífsháska biður mann um að gera eitthvað fyrir sig þá gerir maður það. Og konan í kofanum – sem er ekki norn – bað okkur um að kaupa í matinn.“

            „Hún bað mig ekki um neitt,“ muldraði Pétur.

            „Ætlarðu þá að láta mig eina um þetta?“ spurði Stefanía hneyksluð.

            „Ég – sko, nei, ég skal alveg koma með þér,“ stamaði Pétur. „En mér finnst þetta samt slæm hugmynd,“ bætti hann við. „Ef það kemur eitthvað upp á þá er það þér að kenna.“

            „Ókei,“ sagði Stefanía og hnussaði. „Komdu þá.“

            Þau tóku stefnuna á litlu búðina við endimörk skólalóðarinnar, þangað sem unglingarnir fóru alltaf í frímínútunum. Búðardyrnar opnuðust sjálfkrafa þegar Pétur og Stefanía nálguðust. Pétur dró djúpt andann. Það sem hann lét hafa sig út í.

            „Hvað ættum við að kaupa?“ spurði Stefanía þar sem þau Pétur stóðu á botni mikils hillugljúfurs. Á báðar hendur teygðu staflar af dósamat sig alla leið upp í loft.

            „Ég veit ekki,“ svaraði Pétur svolítið fúll. „Þú sagðist eiga ömmu sem ...“

            „Hún býr í útlöndum,“ greip Stefanía fram í fyrir honum. „Þar er öðruvísi matur en hér.“

            Pétur hugsaði sig um. Hann átti reyndar líka ömmu en hún var heldur alls engin norn. Það gat samt vel verið að nornir borðuðu það sama og venjulegt fólk.

            „Hvað með bjúgu?“ stakk hann upp á.

            „Hvað er það?“

            „Svolítið eins og stórar pulsur.“

            „Góð hugmynd. Eitthvað meira?“

            Þau röltu um búðina með stóra innkaupakerru og tíndu ofan í hana allt sem þeim fannst líklegt að gamla konan í kofanum gæti þarfnast. Mjólkurkex, kartöflumús í pakka, haframjöl, kakóduft, kaffi, skyrdollu, nokkrar örbylgjumáltíðir (jafnvel þó að Pétur benti á að í kofanum væri ekkert rafmagn, hvað þá örbylgjuofn) og eitt súkkulaðidagatal þar sem það voru að koma jól.

            Afgreiðsluunglingurinn við kassann stundi þegar Stefanía rétti honum klinkpokann.

            „Þetta er ekki nóg,“ sagði hann þegar talningunni var lokið.

            Stefanía leit á Pétur sem hristi höfuðið örvæntingarfullur.

            „Við – við skilum þessu þá bara,“ stamaði Stefanía og rétti unglingnum nokkrar örbylgjumáltíðir. Svo flýttu þau sér út með fullan poka af mat og hlupu í einum spretti í felur á bakvið næstu blokk. Þar skellti Stefanía upp úr. Pétur skyldi ekki hvað var svona fyndið en hláturinn var svo smitandi að hann gat ekki annað en tekið undir.

            „Jæja,“ sagði Stefanía og þurrkaði hláturtár úr augnkrókunum. „Förum nú með þetta til nornarinnar – ég meina konunnar í kofanum.“


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Tómas Zoega um Pétur og Stefaníuopnast á hverjum degi til jóla!Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Fylgist með spennandi jólaævintýri Péturs og Stefaníu á hverjum degi til jóla!

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!