En engar áhyggjur, alla söguna má finna á heimasíðunni okkar www.borgarbokasafn.is og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

10. ,, HVÆÆÆSS! MJÁÁ!"

Nóttina eftir dreymdi Guðrúnu að konan í kjallaranum stæði við rúmstokkinn sinn. Guðrún hrökk upp. Til allrar hamingju var hún ein inni í herberginu sínu. Ein með skrímslaplöntunni. Guðrún var staðráðin í því að haga sér vel. Hún vildi ekki vekja Grýlu upp frá dauðum. Hún vildi alls ekki verða hráefni í barnasúpu. Þess vegna klæddi hún sig alveg sjálf og greiddi á sér hárið. Svo faðmaði hún pabba sinn bless og sagði hátt og skýrt:

 „Þú verður stoltur af mér í dag. Ég ætla að hlýða öllu sem þú og mamma segið. Já, og ég ætla líka að hlýða öllu sem Una umsjónarkennari segir.“
 „Þú ert nú meiri jólasveinninn, Guðrún mín,“ svaraði pabbi.
 „En pabbi, geta stelpur orðið jólasveinar?“
 „Þú veist að jólasveinarnir eiga eina systur, hana Leiðindaskjóðu. Hún er ekki jólasveinn sem gefur börnum í skóinn en hún er samt alvöru jólasveinn eins og...,“ pabbi þagnaði og sagði svo, „eins og hinir jólasveinarnir.“

 Pabbi kyssti Guðrúnu á ennið, „við sjáumst á eftir, það er foreldradagur í dag, manstu?“ Á hverju ári bauð bekkurinn foreldrunum í heitt kakó með rjóma og piparkökur fyrir jólin. Stundum komu meira að segja jólasveinar og gáfu börnunum kerti eða spil.

 „Já, elsku pabbi minn.“ Guðrún brosti til pabba síns og hélt af stað í skólann. En þegar hún steig inn á skólalóðina sá hún eitthvað kunnuglegt bak við rennibrautina. Þetta var kötturinn úr kjallaranum, ógnarstór og kafloðinn. Þar sem hún starði á hann sá hún að kötturinn var líka undurfagur og ofboðslega sætur.

 „Kisss, kisss,“ sagði Guðrún, „komdu hérna litli sæti kisi.“
 „HVÆÆÆSS! MJÁÁ!“ svaraði kötturinn.
 „Mikið ertu krúttlegur lítill kisulingur.“ Guðrún teygði hendina í átt að kettinum.
 Hann svaraði með ógurlegu hvæsi og klóraði Guðrúnu í bæði lærin.
 „Ái!“ Guðrún æpti yfir sig. Í sömu andrá hlupu gangaverðirnir Leppur og Skreppur í átt til hennar.
 „E-e-ekki!“ hrópaði Skeppur.
 „H-h-hættu,“ æpti Leppur.
 Kötturinn hljóp á brott.
 „Hann klóraði mig!“ kjökraði Guðrún.
 „Já, kettinum finnst afskaplega leiðinlegt þegar einhver segir að hann sé lítill,“ ansaði Skreppur, „hann er mjög stór.“
 „Já, Guðrún,“ ítrekaði Leppur. Þú sagðir við hann mikið ertu krúttlegur lítill kisulingur. En hann er ógnarstór og ofboðslega flottur!“
 „En, ég vildi bara vera elskuleg við hann,“ útskýrði Guðrún og þerraði tárin.
 „Ó, við skiljum,“ sögðu Leppur og Skreppur í kór. Skreppur leit á Guðrúnu og spurði: „En er allt í lagi með þig?“
 „Já, já,“ svaraði Guðrún.
 „Hjúkk,“ sagði Leppur.
 „Sjúkk,“ tók Skreppur undir. Þeir litu hvor á annan, fegnir á svip. Svo tók Leppur andtök og sagði: „Hún er að koma, Leiðindaskjóða er að koma.“
 „Ó nei,“ æpti Skreppur og gerði sig líklegan til að hlaupa á brott.

 Guðrún leit aftur fyrir sig og sá Lenu, bókasafnsvörð í Fjallaskóla. Hún hafði komið auga á bræðurna og kallaði: „Eru þið nokkuð að hræða vesalings stúlkubarnið?“
 „Nei, við erum engin hrekkjusvín,“ hrópaði Leppur.
 „Einmitt,“ sagði Skreppur. „Akkúrat!“ ítrekaði Leppur.
 „Eins gott!“ ansaði Lena. Í sömu andrá hringdi skólabjallan. Lepp og Skrepp brá í brún.
 „Ansans, við megum ekki verða of seinir,“ tautaði Leppur.
 „Ég verð sko ekki of seinn,“ muldraði Skreppur og spratt af stað.
 „Ég verð sko fyrstur!“ hrópaði Leppur og hljóp á eftir bróður sínum.

 Guðrún stóð eftir og starði spurnaraugum á Lenu.
 „Hvers vegna kölluðu þeir þig Leiðindaskjóðu?“ spurði Guðrún.
 „Ég heiti það: Lena Leiðindaskjóða. Bræður mínir kalla mig alltaf bara Leiðindaskjóðu.“
 „En,“ Guðrún hikaði. „Ert þú þá systir jólasveinanna?“
 „Þú verður að flýta þér,“ sagði Lena Leiðindaskjóða. „Þú mátt ekki verða of sein í skólann.“

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur um Guðrúnu og jólaköttinn opnast á hverjum degi til jóla! Hræðist þið jólaköttinn? Það er eitthvað dularfullt á seyði og jólin eru að koma. Fylgist með í desember.

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!