Engar áhyggjur! Jólasagan Jólaálfurinn sem flutti inn er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar.

Grjónagrautur með slátri

Urður vaknaði við pabba, sem var að koma sér á fætur. Enn sem komið var, engin hróp eða köll. Enginn óvanalegur hlátur. Kannski hafði það virkað? Urður hafði sofið ein í herberginu sína þessa nótt. Pabbi hafði líka harðneitað að vera hjá henni aftur. Urði grunaði að það hefði mest með tússinn, sem tók hann hálfan morguninn að þrífa framan úr sér, að gera.

Kvöldið áður höfðu þau eldað saman grjónagraut. Það síðasta sem hún athugaði fyrir svefninn var grautarskálinn fyrir utan litlu hurðina. Grjónagrautur með fallega bráðnuðum kanilsykri og hálf slátursneið. Reyndar langaði Urði minnst af öllu að gefa honum eitthvað.

Þessi uppátæki voru eitt, en að mamma og pabbi héldu að það væri hún... Hana langaði mest að elta þennan álf uppi og henda honum út.

En... það var svolítið öðruvísi að hugsa það um morguninn standandi með mömmu og pabba sér við hlið, sem sendu veigamikil blik sín á milli, eða liggjandi alein inni í herbergi þegar nóttin var að skella á. Svo hún sagði sjálfri sér að sáttaleiðin væri betri. Kannski yrði hann glaður af graut og Urður myndi ekki lenda í meira veseni út af hrekkjum.

Þegar Urður kom fram sá hún að hurðin var enn á sínum stað. Það var greinilega búið að hreyfa við grautnum. Ekki mikið, en samt. Álfurinn var svo lítill að það var ekkert skrítið. Auðvitað gæti hann ekki borðað meir.

Morgunmaturinn gekk áfallalaust. Urður var svo mikið að leita að dularfullum prakkarastrikum að hún gleymdi meira að segja að biðja um góða múslíið. Eftir morgunmatinn fór hún í könnunarleiðangur. Á klósettinu var ekkert athugavert. Á ganginum engin spor. Allt með kyrrum kjörum í öllum herbergjum. Þetta hafði heppnast. Nú myndi hann láta þau í friði.

Urður andaði út. Hún léttist um mörg kíló og axlirnar sigu niður um nokkra metra. Hún greip skóhornið og renndi sér ofan í skóna. Henni var létt og hún hlakkaði til að fara í skólann.

Bamm. Urður steyptist á andlitið með miklum skell. Hún fann stingandi sársauka í nefinu og enninu, en var of undrandi til að fara að gráta. Hún snéri sér við en það var eitthvað skrítið við fæturna. Hún leit niður fyrir sig og sá að skórnir voru reimaðir saman. „Fari það í hábölvað!“ muldraði hún út um samanbitnar tennur. „Hann skal sko fá að kenna á því“

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað