.

5. desember
Leó vaknar hress því hann fór ekki í tölvuna í gærkvöldi. Hann er að skoða töfrateikniblokkina og dularfulla bílinn þegar Kári kemur inn í herbergi til að vekja hann. Leó er fljótur að fela teikniblokkina og bílinn undir sænginni. Kári hrósar Leó fyrir að vera vaknaður og biður hann að fara í föt og koma niður að borða.

Katla er hinsvegar komin með hita og verður heima í dag með Kára. Hann vinnur hjá Veðurstofunni og getur því stundum unnið heima. Katla sefur fram að hádegi og kemur þá nokkuð hress niður að borða. Kári smyr handa þeim sitthvora kringluna og hellir djús í tvö glös. Þá allt í einu hristist allt og Katla sér gárur í djúsglasinu. „Þetta var jarðskjálfti,“ segir Kári spenntur og hringir í Catarinu, samstarfskonu sína á Veðurstofunni.

En feðginin Kári og Katla voru ekki þau einu sem fundu fyrir þessum skjálfta. Marga kílómetra í burtu, á miðjum jökli er rammgerð tréhurð falin á bak við háan snjóskafl. Inn af henni er gríðarstór hellir fullur af húsgögnum og frægum tröllum. Skömmu fyrir skjálftann stóð Grýla í eldhúsinu og skipaði Leppalúða fyrir. Hann var að setja í deig.

 „Jæja, nú er deigið alveg að verða tilbúið,“ segir Grýla, „það seinasta sem þú þarft að gera er að bæta við tylft af eggjum.“

Leppalúði finnur tólf egg í bakka og ætlar að hvolfa þeim ofan í skálina. „Ekki með skurninni Lúðinn þinn!!!“ gargar Grýla og grípur í hendurnar á honum. „Þú átt að brjóta eggin varlega eins og ég hef sýnt þér hundrað og sjötíu sinnum!“ Leppalúði leggur eggjabakkann á bókastafla við hliðina á skálinni. Hann vandar sig mikið við að brjóta fyrsta eggið. Um leið og eggið dettur skurnlaust ofan í skálina byrjar jarðskjálftinn. Eggjabakkinn hoppar af bókastaflanum og ofan í skálina þar sem ellefu egg brotna og skurn týnist í hvítu hveiti.
 „Nei, nei, nei, nei!! Ekki deigið!“ veinar Grýla. „Var þetta Hurðaskellir að koma heim?“ spyr Leppalúði ringlaður. „Bölvaðir grjóthnullungar, klaki og endalausir jarðskjálftar!“ Grýla arkar reiðilega um eldhúsið. „Hverjum datt í hug að búa uppi á fjalli?!“ „Þér elskan mín,“ segir Leppalúði og hörfar þegar Grýla horfir reiðilega á hann.

Stúfur kemur inn í eldhús.

 „Mamma,“ segir hann. „Já, Stúfur minn,“ svarar Grýla blíðlega. „Sjáðu hvað gerðist í skjálftanum.“ Stúfur sýnir henni bangsa. Bangsinn er nokkuð venjulegur nema önnur hendin er öll í bylgjum. Stúfur heldur einnig á teikniblokk eins og Leó á.

 „Æi, þú verður að teikna annan bangsa handa honum Sveini í Hafnarfirðinum,“ segir Grýla. „Hann Svenni litli er búinn að vera svo stilltur í allan vetur. Gefðu jólakettinum þennan, hann elskar að naga leikföng.“

Stúfur gefur jólakettinum jarðskjálftabangsann og fer svo aftur inn í borðstofu. Þar sitja bræður hans við stórt borð og teikna gjafir í töfrateikniblokkir. Borðið er fullt af leikföngum auk þess sem allir jólasveinarnir hafa stóra poka sér við hlið til að geyma leikföngin í. Grýla gægist inn í borðstofuna og rekur sérstaklega á eftir Stekkjastaur, því það eru aðeins sex nætur þangað til hann fer til byggða.

Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.


Úbbs, eitthvað er ekki rétt. Villurnar eru merktar með rauðu.

Þessi gluggi er lokaður