Zeta heyrði lágt tíst. Það hljómaði samt ekki eins og það væri fugl og var svo lágt að það heyrðist varla. „Halló,“ sagði Zeta og skimaði í kringum sig. „Er einhver hérna?“
Enginn
svaraði. Zeta hlustaði. Tístið heyrðist enn. Nú fannst henni hljóðið berast frá
litlum snjóskafli rétt hjá og hún fikraði sig rólega í áttina að honum. Snjóskaflinn
hristist og skalf.
Skrýtið. Það er eins og snjórinn sé
lifandi, hugsaði Zeta. Nú þegar hún var komin nær heyrði hún að tístið var ekki
tíst, heldur grátur. Einhver var að gráta.
„Halló,“ sagði Zeta aftur. „Ég heiti Zeta.“ Ekkert svar. Zeta færði sig nær, dálítið óörugg og hikandi. „Ég er bókavera og ég er í heimsókn í þessari bók til að kynnast jólunum.“ Skyndilega hætti gráturinn og snjóskaflinn rétti úr sér. Nú sá Zeta að þetta var ekki bara hrúga af snjó, heldur lítill snjókarl sem hafði hniprað sig saman og hágrét. Hann sat í snjónum og sneri bakinu í Zetu.
„Þú ert of sein,“ sagði snjókarlinn titrandi
röddu án þess að snúa sér við.
„Hvað áttu við? Er ég of sein?“ spurði
Zeta hissa og talaði vingjarnlegum rómi til að reyna að róa snjókarlinn.
„Já, of sein. Það var það sem ég
sagði. Jólin eru horfin. Þau fuku burt í óveðrinu,“ bætti snjókarlinn við og
andvarpaði djúpt.
„Eru jólin alveg horfin?“ spurði
Zeta hissa sem vissi alls ekki hvað snjókarlinn átti við. Hvað var horfið?
„Já, alveg horfin. Allt sem ég átti
er fokið í burtu,“ sagði snjókarlinn og röddin skalf. „Það kom öflugur snjóbylur
og feykti burt jólatrénu mínu sem stóð fyrir utan húsið. Síðan kom annar snjóbylur
og feykti snjóhúsinu mínu í burtu og öllu sem var inni í því. Nú er allt sem
minnir á jólin horfið og það í sjálfu Jólalandinu!“ bætti hann við og hrópaði
næstum síðustu orðin.
En hvað það var leitt, hugsaði Zeta
sem langaði til að hugga þennan raunamædda snjókarl. Ég hlýt að geta
hjálpað.... En hvernig? hugsaði hún og ákvað samstundis að gera allt sem hún
gæti til að hjálpa snjókarlinum að finna jólin sín aftur.