Zeta
fletti blaðsíðunum fram og aftur og alls staðar var sama sagan: Hvítar síður og
stafarugl.
Hún var
svo djúpt hugsi að litlu eyrun stóðu beint upp í loftið. Þetta þarf ég að kanna
betur, hugsaði hún með sér.
Hún fletti aftur á fyrstu blaðsíðuna
og gekk nokkur skref aftur á bak. Hátt og snjallt þuldi hún upp bókaþuluna
sína:
Bók,
skrudda, skræða,
nú
mun ég þig lífi gæða.
Bókaormur,
lestrarhestur
lifandi
verður þessi lestur.
Bókin byrjaði að hristast á gólfinu og skært ljós umlukti hana svo að hvítar blaðsíðurnar ljómuðu. Zeta hljóp af stað, tók undir sig stökk og lenti ofan á bókinni, þar sem hún sogaðist samstundis ofan í hvítar blaðsíðurnar.
Zeta hringsnerist um sjálfa sig í
marga hringi og þeyttist til og frá. Loks lenti hún á bólakafi ofan í afskaplega
mjúkri en ískaldri hrúgu. Með erfiðismunum kom hún sér upp úr og leit í kringum
sig. Allt var hvítt! Hún hafði lent ofan í snjóskafli.
Zeta stóð á fætur, lagaði eyrun, dustaði
snjókornin af fötunum sínum og hristi sig dálítið. Hún leit í kringum sig og sá
ekkert nema hvítar fannbreiður eins langt og augað eygði. Þarna var snjór alls
staðar! Í fjarska sá hún stór fjöll með hvítum toppum gnæfa yfir og sólin skein
á himninum. Allt var svo afskaplega friðsælt.
Hún kom auga á skilti sem stóð upp
úr snjónum en var svo þakið snjó að það sást ekki hvað á því stóð. Zeta gekk að
skiltinu. Hún dustaði og blés af því snjóinn. Á því stóð: Jólaland - þar sem jólin eru svakalega frábær!
Zeta leit í kringum sig en sá engan.
Hvorki hús né lifandi verur. Sögupersónur bókanna voru vanar að koma strax og
taka á móti henni þegar hún heimsótti nýja bók. Hvers vegna gerðist það ekki
núna? Býr enginn hér?
Hún var djúpt hugsi þegar henni
fannst hún allt í einu heyra eitthvað undarlegt hljóð.