Zetu
varð hugsað um litla rúmið sitt inni í hlýja bókasafninu og hún fann að nú var kominn tími til að halda
heim á leið. Jólaland var góður staður en heimkynnin kölluðu á hana.
„Ég þarf að kveðja ykkur núna til að
halda jólin í mínum heimi. Ég sakna hlýjunnar á bókasafninu og allra bókanna,
já og allra krakkanna sem koma í heimsókn á safnið. En ég hlakka til að
heimsækja ykkur aftur síðar.“
„Þakka þér fyrir alla hjálpina,“
sagði Klaki með tárin í augunum.
„Þú ert hugrakkasti snjókarl sem ég
hef nokkurn tíma hitt,“ sagði Zeta og faðmaði Klaka.
„Þakka þér fyrir að vera vinur minn,“
sagði Tumi, líka með tárin í augunum.
„Og þú ert kærleiksríkasta snjótröll
sem ég hef nokkurn tíma hitt,“ sagði hún og faðmaði Tuma að sér. Hún sneri sér að
músunum, fuglunum og gamla ref.
„Þið eruð öll svo yndisleg,“ sagði Zeta og faðmaði hvern og einn. Síðan tók hún sér stöðu á miðju gólfinu og fór með bókaþuluna sína:
Bók,
skrudda, skræða,
nú
mun ég þig lífi gæða.
Bókaormur,
lestrarhestur
lifandi verður þessi lestur.
Leiftursnöggt
barst hún inn í töfravíddina og eftir nokkrar sekúndur var hún komin aftur á
bókasafnið sitt. Hún rankaði við sér þar sem hún sat ofan á jólabókinni. Hún
stóð upp og lokaði bókinni. Hún brosti þegar hún sá myndina af Klaka á
bókakápunni. Þetta hafði verið ævintýraleg bókaferð og hún hafði lært svo mikið
um jólin. Zeta geispaði stórum geispa og fann að hún var orðin ansi þreytt
eftir að hafa klifið fjöll og arkað í gegnum snjóinn í heilan dag.
„Svona eru þá blessuð jólin sem eru
að koma,“ hugsaði Zeta með sér þegar hún lagðist til svefns. „Að vera með vinum
við kertaljós og spil.“ Brátt var hún steinsofnuð eftir ferðalag dagsins. Úti
lýstu jólaljósin upp vetrarmyrkrið. Allt var kyrrt og hljótt inni á bókasafninu
fyrir utan litlar hrotur sem bárust frá lítilli bókaveru sem svaf vært og rótt.