„Þetta eru ekki jólin,“ sagði Klaki vonsvikinn. „Þetta eru bara kerti og spilastokkur.“
Gamli refurinn sagði ekkert
heldur kveikti á kertinu og dró spil út úr spilastokknum. Litlu mýsnar fylgdust
með og jöpluðu á mandarínunum. Hann benti Tuma á að kveikja upp í arninum og
það hlýnaði strax í hellinum.
„Jólin snúast fyrst og fremst um það að vera saman. Þess vegna ætlum að spila saman,“ sagði gamli refurinn.
„Já, eins og í jólakvæðinu!“ hrópaði
Zeta hátt. „Ég skil þetta núna!“ Síðan
söng hún hátt og snjallt: Bráðum koma
blessuð jólin, börnin fara að hlakka til. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það
minnsta kerti og spil...
Litlu mýsnar hoppuðu um af kæti.
„Á jólunum föðmumst við,“ sagði Zeta
hlæjandi og tók utan um Klaka.
Klaki andvarpaði. „Jæja, já, ætli
það ekki. Það er bara svo gaman að opna pakka.“
„Gjöf getur líka verið samvera með
vinum og fjölskyldu,“ hélt gamli refurinn áfram og dreifði spilunum til hinna.
„Er það? Það vissi ég bara alls ekki,“
sagði Tumi bæði hissa og ánægður.
Maddamma mús potaði í Tuma snjótröll
með prjóninum sínum. „Gjörðu svo vel,“ sagði hún rétti honum langan trefil sem
hún var búin að prjóna handa honum.
„Handa mér?“ sagði Tumi og ætlaði
ekki að trúa sínum eigin augum. „Þetta er fallegasta gjöf sem ég hef nokkru
sinni fengið. Eða, ég held að ég hafi bara aldrei fengið neina gjöf áður. Þakka
þér fyrir,“ sagði hann og sveipaði treflinum um sig. „Nú verður mér ekki kalt!“
„Og það er nú heppilegt fyrir okkur
hin,“ hvíslaði Klaki að Zetu og þau hlógu dátt. Klaka var farið að þykja
verulega vænt um nýju vinkonu sína.
Vinirnir
sátu saman og spiluðu á spil, hlógu og sungu langt fram á nótt. Þau skemmtu sér
svo vel.
„Viltu ekki bara eiga heima hjá
okkur í Jólalandi?“ spurði Klaki loks Zetu.
Zeta horfði á þessa nýju vini sína
og hugsaði sig um. Það væri nú ansi notalegt að geta verið áfram hjá þessum góðu vinum. Ætti hún kannski að
kveðja bókasafnið og búa sér til heimili í Jólalandi?