Þau
voru búin að bíða í dágóða stund en engir gestir höfðu látið sjá sig.
„Æ, það kemur örugglega enginn,“
sagði Tumi snjótröll. „Það þorir enginn að koma í heimsókn til mín.“
En einmitt þegar hann hafði sleppt
orðinu heyrðist í einhverjum mása og blása fyrir utan hellinn. Þarna var Maddamma
mús komin með börnin sín tíu í halarófu á eftir sér. Öll börnin héldu í garnspotta
til að týnast ekki og á bakinu bar hún garnhnykil og prjónana sína.
Maddamma
mús dustaði af sér snjóinn og dró öll börnin inn í hellinn. „Er þetta þá þetta
ógurlega snjótröll,“ hnussaði hún. Börnin hennar röðuðu sér upp fyrir aftan
hana, dálítið skelfd yfir stærð snjótröllsins. „Þú ert miklu minni en ég hélt,“
bætti hún við og fékk sér sæti. Hún byrjaði strax að prjóna.
Tumi snjótröll stóð þarna með risa
bros á vör. „Verið velkomin í hellinn minn.“ Hann hneigði sig.
„Þú hefur fundið alvöru prjón sé
ég,“ hvíslaði Klaki að henni með glott á vör. Maddamma mús hnussaði bara. „Já,
ég fann hann loks eftir mikla leit,“ sagði hún án þess að líta upp frá
prjónunum sínum.
„Fáið ykkur endilega mandarínur,“
sagði Tumi. Litlu mýsnar sleiktu út um og létu ekki segja sér það tvisvar. Þær
stungu sér á bólakaf ofan í ávaxtaskálina.
„Hvar eru músasiðirnir, krakkar? Ekki
borða alla skálina,“ heyrðist í Maddömmu mús. Litlu mýsnar hámuðu í sig
mandarínurnar. En eftir smá stund byrjuðu þær að skjálfa því það var svo kalt
inni í hellinum. Zeta fann að henni var líka orðið dálítið kalt. Það vantaði
eitthvað til að hlýja sér við. Bara ef þau væru nú með kertaljós til að geta
haft þetta örlítið notalegra.