Engar áhyggjur! Jólasagan Ullarsokkar í jólasnjó er aðgengileg á vefnum okkar og á hlaðvarpi Borgarbókasafnsins í lestri höfundar. 

19. Það mikilvægasta við jólin

 

Zeta og Klaki færðu sig nær snjótröllinu, klöppuðu honum á bakið og hugguðu hann.

„Þetta var greinilega aaaalveg óvart,“ sagði Zeta. Klaki andvarpaði. Hann var hvorki leiður yfir storminum og týndu jólunum, né hræddur við snjótröllið lengur. Þau sátu öll saman við hellismunnann, alveg ráðalaus.

„Hvað gerum við nú þegar jólin eru fokin út í veður og vind?“ spurði Klaki. Zeta var djúpt hugsi. Eitthvað hlaut að vera hægt að gera til að gera jólin hátíðleg þó að allt væri breytt.

„Hvað er mikilvægast á jólunum?“ spurði hún Klaka. Hann hugsaði málið. „Eru það piparkökurnar, jólatréð, skrautið eða gjafirnar?“ bætti hún við.

Eftir smá stund svaraði Klaki. „Ja, þetta er allt mikilvægt en ekkert af þessu er skemmtilegt að hafa og gera nema maður hafi vini sína hjá sér.“

Þá var eins og eldingu hafi lostið ofan í kollinn á Zetu. „Ég veit! Við höldum jólagleði hér í hellinum hjá Tuma og bjóðum vinum okkar.“

„Vinir ykkar eru velkomnir til mín... en þorir einhver að koma ef allir eru hræddir við mig?“ spurði Tumi áhyggjufullur.

Klaki og Zeta voru hugsi. „Við útskýrum fyrir þeim að þú sért ekkert ógurlegur,“ sagði Zeta ákveðin og Klaki kinkaði kolli.

Tumi klæddi sig í ullarsokkana og stóð á fætur. „Ég á nóg af mandarínum handa öllum og ég yrði hamingjusamasta snjótröll í heimi ef ég myndi eignast ykkur öll fyrir vini,“ bætti hann við og hoppaði um því hann var svo glaður.

Zeta tók sér stöðu við hellisopið. „Hjálpið mér að kalla á Bíbí,“ sagði hún við Klaka og Tuma. 

„Bíbí glókollur!“ hrópaði hún eins hátt og hún gat. Klaki og Tumi snjótröll tóku undir.

Eftir smá stund sást lítil doppa á himnum koma fljúgandi í áttina að Mikilfenglega fjalli. Þetta var Bíbí.

„Vantar þig hjálp kæra Zeta?“ spurði Bíbí þegar hún var komin að hellisopinu. Hún hélt sig í hæfilegri fjarlægð þegar hún sá snjótröllið í gættinni.

„Tumi snjótröll býður ykkur í jólaveislu og þú þarft að sækja Maddömmu mús og gamla ref,“ sagði Zeta.

Bíbí horfði hissa á Zetu. Jólaveisla í helli snjótröllsins?

„Treystu mér,“ kallaði Zeta hughreystandi. „Þetta verður allt í lagi“. 

Bíbí blakaði vængjunum og þaut af stað.


Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar. 

{:opt_in=>[], :opt_in2=>[], :opt_in3=>[], :subscriber_id=>[]}
Úbbs, eitthvað var ekki rétt. Mistök eru merkt með rauðu

Glugganum er lokað


Skilmálar

Nýr og spennandi kafli í jólasögu Evu Rúnar Þorgeirsdóttur um bókaveruna Zetu, snjókarlinn Klaka og félaga þeirra í Jólalandi opnast á hverjum degi til jóla. Af hverju fuku jólin í burtu? Og tekst þeim Zetu og Klaka að finna þau aftur?  

Við sendum þér daglegan tölvupóst í desember og minnum þig á þegar nýr gluggi hefur opnast. Þú átt kannski eftir að sakna okkar eftir jól, því þá snarhætta póstarnir að berast!