„Hver
eruð þið?“ spurði snjótröllið loks skjálfandi röddu.
„Ég er bókaveran Zeta og þetta er
snjókarlinn Klaki,“ sagði Zeta rólega.
„Komdu!“ kallaði Klaki aftur órólegur.
Hann horfði niður brekkuna og bjó sig undir að renna sér niður fjallshlíðina.
„Bíddu aðeins,“ sagði Zeta og sneri
sér að snjótröllinu: „Hvers vegna faldir ÞÚ þig inni í skápnum?“
„Ég heyrði einhver hljóð fyrir utan
og varð hræddur. Heyrðuð þið þau líka?“ spurði snjótröllið og leit órólegt í
kringum sig.
„Það voru líklega hljóðin í okkur,“
sagði Zeta og leit hissa á Klaka.
„Eruð þið nokkuð... hættuleg?“ spurði
snjótröllið dálítið skelkað á svip og hvíslaði næstum því síðasta orðið. Zeta
kom ekki upp orði, hún var svo hissa.
„Hvers vegna eruð þið hér? Hingað kemur aldrei neinn,“ bætti snjótröllið við.
„Ja, við komum hingað til að handsama tröll,“ sagði Zeta og fannst þetta samtal orðið dálítið skrýtið.
„Ha! Er tröll hér? Hvar? Hvar er
það?“ spurði snjótröllið og hnipraði sig saman.
Zeta
og Klaki horfðu á hvort annað og voru greinilega að hugsa það sama. Var þessi
stóra ófreskja þá ekki snjótröllið eftir allt saman?
„Eh, það ert þú sem ert tröllið, er
það ekki? Snjótröllið? Ófreskjan í fjöllunum?“ spurði Zeta. Klaki færði sig nær
henni. Þetta var allt svo undarlegt.
„Ha! Ég? Ég er engin ófreskja! Ég er
bara lítið snjótröll. Ég heiti Tumi. Ég er ekki vondur,“ sagði snjótröllið sem
var nú búinn að fá sér sæti á gólfinu. „Er einhver hræddur við mig?“ Hann
horfði einlægum augum á Zetu og Klaka.
„Ert það ekki þú sem býrð til snjóbylinn
sem hefur geisað í Jólalandi? Vonda veðrið sem er búið að feykja öllu um koll?
Jólatrénu mínu og sjálfu húsinu mínu?“ sagði Klaki sem var nú líka sestur á
gólfið.
„Snjóbylur sem feykir öllu um koll?
Það hljómar hræðilega,“ sagði Tumi snjótröll sorgmæddur á svip. „Ég hef ekki
séð neinn snjóbyl. Um hvað eruð þið að tala?“