Zeta
og Klaki gægðust inn um hellisopið. Þau voru greinilega á réttum stað. Hér bjó einhver.
Einhver stór. Þarna var stórt borð og stór stóll og líka afskaplega stórt rúm.
Innst í hellinum var líka stór skápur og hurðin var dálítið opin. Fyrir innan
var allt hljótt.
„Það er enginn heima,“ hvíslaði Zeta
og settist aftur í snjóinn. Hún leysti af sér ullarsokkinn og skildi báða
sokkana eftir við hellisopið. „Við skulum fara inn, fela okkur og bíða eftir
því að snjótröllið komi heim. Þá læðumst við fram án þess að hann taki eftir og
bindum fæturna á honum saman.“ Zeta var með áætlunina á hreinu.
Klaki horfði hissa á Zetu og fannst
hún full örugg með sig. „Ertu viss um að þú hafir ekki gert þetta áður?“
Zeta klifraði á undan inn í hellinn
og greip í höndina á Klaka og togaði hann inn fyrir. Inni í hellinum var nokkuð
dimmt og kalt. Zeta benti Klaka að koma og fela sig undir borðinu.
„Æ, hann sér okkur áreiðanlega hér.
Kannski er betra að fela sig inni í þessum skáp,“ hvíslaði Klaki og færði sig rólega nær skápnum.
„Vertu kyrr hér,“ sagði Zeta. „Við
sjáum hann betur héðan þegar hann kemur inn.“
En
Klaki var lagður af stað í áttina að skápnum. Ofurvarlega kíkti hann inn um opna
hurðina á skápnum. Hann færði sig nær. Síðan stoppaði hann. Honum fannst hann
sjá eitthvað þarna inni. Gat það verið...? Inni í myrkrinu sá hann móta fyrir
öðrum augum - og risastóru nefi! Í nokkrar sekúndur var algjör þögn. Klaki áttaði
sig loks á því að það væri einhver stór vera inni í skápnum og hann æpti upp
yfir sig svo glumdi í öllum hellinum. Veran í skápnum öskraði á móti. Zeta hrökk
svo í kút að hún datt um koll.
Klaki kom hlaupandi á hraðaspretti í áttina að Zetu. „Það er einhver inni í skápnum!“ öskraði hann. Síðan tók hann á rás út úr hellinum.
Skáphurðin opnaðist og stórvaxin vera steig varlega út. Veran
var með stór lafandi eyru og stórt nef og var skelkuð á svipinn. Hún hélt
höndunum að sér og horfði til skiptis á Zetu og Klaka sem stóð við hellisopið.
Zeta skalf inni í sér af ótta en var á sama tíma forvitin. Veran virtist jafn skelkuð
og þau. Klaki var farinn að naga á sér fingurna af stressi. „Komdu Zeta!“
hrópaði hann. En Zeta var allt of forvitin til að geta hlaupið í burtu. Þetta ógurlega
snjótröll virtist einhvern veginn ekki vera mjög ógurlegt.