„Við verðum að
flýta okkur til gamla refsins,“ sagði Klaki. „Hvað ef Snjótröllið er á ferli að
leita að sokknum sínum?“ Hann strauk hendi yfir andlit sitt. Zeta jánkaði. Þau
gætu verið í stórhættu. Hún greip sokkinn og þau Klaki hjálpuðust að við að
draga hann með sér. Þau flýttu sér eins og þau gátu.
Eftir nokkra stund komu þau að dálitlum
hóli, sem var snævi þakinn og á honum var lítil hurð og tveir litlir gluggar.
„Hér býr gamli refurinn,“ sagði
Klaki feginn því að vera kominn og bankaði á hurðina.
„Kom inn,“ heyrðist kallað fyrir
innan.
Klaki tók í
handfangið og tókst með herkjum að opna hurðina. Fyrir innan var rökkur og
kveikt á einu kerti.
„Hver er þar?“ heyrðist sagt í
rökkrinu.
„Þetta er ég, Klaki snjókarl og Zeta vinkona mín. Þekkirðu mig ekki, gamli vinur?“
„Ert þetta þú? Vertu velkominn. Ég er víst búinn að týna gleraugunum mínum og sé ekki mjög vel.“ Gamli refurinn gekk hægum skrefum við staf í áttina að Zetu og Klaka sem stóðu enn í dyragættinni.
„Jæja, komið inn fyrir. Ég er aðeins
að reyna að snurfusa hérna,“ sagði gamli refurinn. Hann hélt á körfu fullri af
könglum. „Ég er að skreyta jólatréð mitt með þessum könglum.“
„En hvað þetta er fallegt heimili
sem þú átt,“ sagði Zeta og litaðist um. Þarna var lítið rúm og borð með
fallegum kertastjaka og spilastokk.
Klaki andvarpaði. „Þú ert heppinn að
eiga jólatré. Mitt tré fauk út í buskann í snjóbylnum.“
„Ja, jólatréð mitt stóð fagurlega
skreytt fyrir utan húsið mitt en það fauk reyndar líka, ásamt gleraugunum mínum.
Ég fann þetta ágæta litla tré hérna rétt hjá heimilinu mínu,“ sagði gamli refurinn
og benti í áttina að ræfilslegu litlu tré sem stóð úti í horni og búið var að
hengja nokkra köngla á.
Klaki horfði á tréð. Eitthvað var
það kunnuglegt.
„Bíddu nú við, gamli refur! Þetta er ekki
tré. Þetta er höndin mín!“ hrópaði Klaki.