Klaki þreif til
sín hattinn, sturtaði eplunum úr og setti hann á hausinn. Hann horfði reiðilega
á Bíbí sem kom flögrandi til þeirra. Bíbí settist í snjóinn. Hún bar vænginn
fyrir gogginn og flissaði dálítið.
„Ó, afsakaðu. Ég sé það núna að
þetta er hattur. Mér fannst karfan líka eitthvað skrýtin,“ sagði hún og brosti
afsakandi til Klaka.
„Mikið ertu fínn núna,“ sagði Zeta
og virti litla snjókarlinn fyrir sér.
Við hrósið hætti Klaki samstundis að
vera reiður og brosti út að eyrum.
„Já, þetta er líka uppáhalds
hatturinn minn!“ Hann dansaði um í snjónum. „Jólahatturinn minn! Nú verð ég fínn
um jólin - það er að segja - ef það verða einhver jól.“ Hann andvarpaði og
settist niður.
„Eigið þið nokkuð körfu sem við
getum fengið lánaða?“ spurði Bíbí.
„Nei, við erum bara með þennan stóra
ullarsokk sem við vitum ekki hver á,“ sagði Zeta. Hún dró ullarsokkinn upp úr
snjónum og sýndi Bíbí.
Fuglinn tók andköf. „Snjótröllið!“
tísti Bíbí og flögraði aðeins til baka. „Enginn nema snjótröllið getur átt
svona stóran sokk. Það er með svo ógnarstóra fætur og ógurlega stórt nef.“
Zeta og Klaki horfðu á hvort annað, ullarsokkinn og á fjöllin stóru. Þau fengu bæði kaldan hroll niður bakið. Bíbí
flögraði aftur upp í tréð.
„Hvert eruð þið að fara? Þið eruð þó
ekki að fara í áttina að Mikilfenglega fjalli?“ spurði Bíbí.
„Ja, við erum að leita að ýmsum
hlutum sem Klaki hefur týnt og viljum komast að því hvers vegna það hefur
snjóað og vindurinn blásið svona mikið. Þess vegna ætlum við að hitta gamla
refinn,“ útskýrði Zeta.
Bíbí hugsaði sig um í smá stund. „Við
fuglarnir förum aldrei nálægt Mikilfenglega fjalli, en ég vil gjarnan launa
ykkur hjálpina fyrir eplatínsluna. Ef þið lendið í vandræðum skuluð þið kalla á
mig og ég reyni að bregðast við. Gangi ykkur vel.“ Síðan var hún flogin í
burtu.
Klaki og Zeta horfðu hvort á annað
og voru bæði djúpt hugsi. Þetta var þá satt sem Maddamma mús sagði um
snjótröllið. Það var þá til í alvörunni!