Loks lægði vindinn, snjókoman hætti og það sást aftur í sólina.
„Ah, þetta er betra,“ sagði Klaki og kíkti undan ullarsokknum, feginn að hríðinni hafði slotað.
„Ég vissi að sólin mundi koma fljótt aftur,“ sagði Zeta og var líka fegin. „Sólin kemur alltaf aftur.“
Fyrir ofan þau heyrðist fuglasöngur. Zeta leit upp. Hópur blárra fugla sat hátt uppi í lauflausum trjánum og söng svo fallega. Fleiri fuglar flögruðu í kringum trén. Zeta dáðist að fuglahópnum og horfði dáleidd á þá sýna listir sínar, flögra um og fljúga lágt yfir snævi þakinni jörðinni.
„Halló!“ sagði mjóróma rödd. Fuglinn
sem hafði vísað þeim veginn sat á grein fyrir ofan þau. Nú sá Zeta að hann var
með gula rönd á höfðinu. „Er allt í lagi með ykkur?“
„Já,“ svaraði Zeta. „Þakka þér fyrir
hjálpina.“
„Mín var ánægjan. Ég heiti Bíbí
glókollur,“ sagði fuglinn og dillaði stélinu. „Nú vantar okkur hjálp frá ykkur.“
Fuglinn flögraði í nokkra hringi. „Við vorum búin að safna litlu jólaeplunum
okkar saman í körfu en eplin duttu í snjóinn þegar karfan fauk í storminum. Getið
þið hjálpað okkur að finna eplin og setja í körfu? Þið hafið hendur og eruð
fljótari en við,“ sagði Bíbí.
Klaki horfði á höndina sína. „Ég er reyndar bara með eina hendi,“ sagði hann leiður.
Zeta klappaði á bakið á Klaka
til hughreystingar. „Já auðvitað hjálpum við til,“ kallaði hún til fuglanna. Síðan
hófust þau handa.
Allir hjálpuðust að og brátt voru
Zeta og Klaki búin að safna öllum eplunum saman í eina hrúgu í snjónum.
„Hvað eigum við að gera við eplin?“ hrópaði
Klaki til fuglanna.
Bíbí kom samstundis flögrandi til
þeirra. „Setjið þau í svörtu körfuna við tréð,“ svaraði hún.
Zeta og Klaki klöngruðust með eplin
að svörtu körfunni. Þegar þau nálguðust stansaði Klaki og gapti fram fyrir sig.
„Heyrðu, þetta er ekki karfa. Þetta er fíni hatturinn minn!“ hrópaði hann upp
yfir sig.