Vindurinn blés kröftuglega og nú byrjaði að snjóa.
„Ég vil ekki eiga á hættu að hitta þetta snjótröll. Förum aftur heim,“ sagði Klaki áhyggjufullur.
„En þú átt hvergi heima. Auk þess vitum
við ekki hvort snjótröllið sé í alvörunni til,“ sagði Zeta. „Góðu fréttirnar
eru að þú ert búinn að finna nefið þitt aftur! Við finnum örugglega eitthvað
fleira sem þú hefur týnt,“ sagði Zeta bjartsýn og arkaði af stað.
„Jæja, já það er rétt hjá þér,“
sagði Klaki. Hann leit til himins. Það var byrjað að snjóa meira og vindurinn
jókst. „Leitum skjóls hjá trjánum þarna,“ sagði hann og benti á nokkur stór tré
sem stóðu í hnapp rétt hjá.
„Góð hugmynd hjá þér. Ég tek
ullarsokkinn með. Hann gæti komið að góðum notum,“ sagði Zeta og dröslaði
ullarsokknum á eftir sér í snjónum.
Vindurinn blés og blés og snjókoman
jókst og það varð sífellt erfiðara að sjá fram fyrir sig. Zeta og Klaki börðust
í gegnum hríðina til að komast í skjól hjá trjánum.
„Ég sé ekki hvert við eigum að
fara,“ sagði Klaki þegar snjóhríðin var orðin að blindbyl. Zeta greip í höndina á honum.
„Við pössum hvort annað. Þetta
verður allt í lagi,“ sagði hún hughreystandi, þrátt fyrir að vera sjálf orðin
dálítið hrædd. Þessi leit að jólunum var að breytast í háskalegt ferðalag.
Allt í einu heyrðist tíst í fugli og
þau sáu móta fyrir litlum, bláum fugli mitt í snjóhríðinni.
„Þessa leið,“ sagði litli fuglinn og
flögraði við hliðina á þeim. Zetu fannst aðdáunarvert að fuglinn gæti haldið
flugi í þessu brjálaða veðri.
Fuglinn leiddi þau að stóru tré. Þar
settust þau niður, kúrðu sig saman og vöfðu ulllarsokknum utan um sig til að fá
skjól. Fuglinn hvarf sjónum þeirra og þarna sátu þau alveg kyrr og pössuðu upp
á hvort annað.
„Æ, þetta er allt of mikill snjór!
Við förum á kaf,“ sagði Klaki áhyggjufullur og lokaði augunum. „Ég vil bara fá
jólin mín aftur.“
Hér má hlusta á kaflann í lestri höfundar.